131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var skrýtin ræða. Hv. þingmaður vælir yfir því að ég vilji ekki hlusta á sjónarmið hans en leiti bara eftir sjónarmiðum ráðherrans. Ég hef bara fengið alveg nóg af því að hlusta á sjónarmið hv. þingmanns í efnahags- og viðskiptanefnd í þessu máli. (PHB: Segjum tvö.) Hv. þingmaður veit að hann kemur varla með nokkrar breytingartillögur inn í efnahags- og viðskiptanefnd nema ráðherra hafi samþykkt þær. Vinnugangurinn er bara nákvæmlega þannig. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður ætlaði t.d. að fá inn breytingartillögu, að taka upp tillögu Stefáns Más Stefánssonar varðandi 27. gr., að dómstólar skuli taka réttmætt tillit til þeirrar ákvörðunar, og fannst þetta vera þessi fína breytingartillaga. En svo þegar hann var búinn að tala við ráðherrann og fara með þetta inn í sinn þingflokk steinhætti hann við allt saman. Hvar var þá sannfæring þingmannsins, hvar var þá þingræðið? Það er nefnilega ráðherraræðið sem ræður, það er nákvæmlega það sem er.

Og að vitna svo í það að ég hafi beint því til viðskiptaráðherra að hún skoðaði það og kæmi með ábendingu, eða hvernig það var orðað, til Samkeppnisstofnunar að skoða olíufélögin. Það sýndi sig að það var heldur betur nauðsyn á því og ráðherrann hefði betur gert það fyrr þegar ég beindi þessari fyrirspurn til hennar, vegna þess að það var á árinu 1998, olíufélögin hefðu þá ekki fengið allt það svigrúm, öll þau ár til að athafna sig í ólöglegri starfsemi ef það hefði verið gert fyrr. Ráðherrann gerði það að vísu síðar en það var bara allt of seint.