131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:48]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Á nefndarfundum hv. efnahags- og viðskiptanefndar er leynd. Þegar ég las þetta álit frá Stefáni Stefánssyni sagði ég að þetta gæti verið sniðugt og ég vildi skoða það. Ég bar það undir þingflokk minn en ekki ráðherrann. Þá var mér bent á að þetta ákvæði hefði verið prófað og því hefði verið hafnað, það þýddi ekkert að koma með það. Ég féllst á þau rök. Auk þess áttum við fund með hv. utanríkismálanefnd til að fá enn frekar staðfestingu á þessu.

Þetta er allt ráðherraræðið og það vill svo til að ég ræð ekki einn í mínum þingflokki ef hv. þingmaður skyldi halda það. Ég þarf að bera undir hann ýmis mál. Við erum nefnilega með sameiginlega stefnu.

Varðandi þessa fyrirspurn og afskipti þar sem þingmaður er að krefjast afskipta viðskiptaráðherra, þ.e. framkvæmdarvaldsins, með Samkeppnisstofnun. Mér fannst hv. þingmaður ekki svara því: Hvað átti ráðherra að gera? Átti hún að segja forstjóra Samkeppnisstofnunar að hann hefði ekki staðið sig í stykkinu og hann skyldi fara að rannsaka þetta og hitt? Eru þetta ekki einmitt þau pólitísku afskipti sem menn eru alltaf að gagnrýna? Er þetta ekki akkúrat það? Og er það ekki einmitt þetta sem komið er í veg fyrir með því að hafa stjórn sem hlítir ekki beinu boðvaldi ráðherra?

Ég held að frumvarpið sé mjög til bóta að þessu leyti og hv. þingmaður komi ekki með svona fyrirspurnir eftir það.