131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:13]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hlýtur að vera einsdæmi á Vesturlöndum að viðskiptaráðherra lýsi því yfir í þjóðþinginu að þegar forstjóri eins öflugasta fyrirtækis landsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, telji að offari sé farið í lagasetningu og stjórnvaldsaðgerðum, telji viðskiptaráðherra að hún sé á réttri leið þegar hún vekur slíkar áhyggjur hjá frammámönnum í íslensku atvinnulífi. Er það nema von, virðulegur forseti, að menn hafi áhyggjur af annarlegum sjónarmiðum hjá hæstv. viðskiptaráðherra.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ósk hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur 1998 um skýrslu um olíu- og tryggingafélögin var hafnað. Hvers vegna hafnaði ráðherra þeirri úttekt á þeim tíma? Og í öðru lagi hvort hún sé ekki tilbúin til að lýsa því yfir að þessi kerfisbreyting muni ekki leiða til þess að stjórnendur Samkeppnisstofnunar þurfi að sækja um störfin sín aftur, heldur hvort hún sé ekki tilbúin til að lýsa því yfir (Forseti hringir.) að þeir muni stýra hinu nýja Samkeppniseftirliti eins og þeir nú stýra Samkeppnisstofnun.