131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:16]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvers vegna hún hafnaði rannsókn á olíu- og tryggingafélögunum 1998. Látum það liggja milli hluta enda veit ég ekki hversu miklum tilgangi það þjónar að eiga orðastað við virðulegan hæstv. ráðherra.

Það er sannarlega áhyggjuefni að eftir að stjórnendur Samkeppnisstofnunar höfðu frumkvæði að því að svipta hulunni af samsæri gegn neytendum, samráði olíufélaganna árum saman með milljarðatjóni fyrir neytendur í landinu og fyrir samfélagið allt, verði lyktir málsins ekki þær að þeir stjórnendur séu efldir og hafðir með í ráðum um eflingu á samkeppniseftirlitinu í landinu. Nei, þvert á móti verður það til þess að viðskiptaráðherra gengur fram, leggur niður stofnunina og auglýsir störf stjórnendanna. Það er sannarlega áhyggjuefni, virðulegur forseti, þau skilaboð sem þannig (Forseti hringir.) eru send út til embættismanna hins opinbera.