131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:22]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður heldur því annars vegar fram að það hafi ekki verið mjög merkilegt sem fram kom í máli mínu, en hins vegar var það svo margt að hann getur ekki brugðist við því í stuttu andsvari. Það er nú eins og það er.

Ég vil halda því fram að c-liður 17. gr. sé bastarður í lögunum, hann er ekki í samræmi við evrópskan rétt og hann kemur inn í nefndarstarfi á sínum tíma þegar lögin voru upphaflega sett. Það sem er kannski mikilvægast er að ákvæðið hefur aldrei verið nýtt. Það segir sína sögu. Nú segja samkeppnisyfirvöld að það sé gríðarlega mikilvægt að hafa ákvæðið í lögunum, en það hefur aldrei verið nýtt. Það er því ákvæðið sem kemur í staðinn sem skiptir máli, þ.e. heimild samkeppnisyfirvalda til að bregðast við gagnvart fyrirtækjum sem brjóta lög. Það er málið.