131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:26]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega ekki rétt að halda því fram að þarna sé um allt starfsfólk að ræða. Verið er að tala um það starfsfólk sem vinnur núna hjá Samkeppnisstofnun til að það þurfi ekki að búa við óvissu. Það er verið að gera þetta fyrir starfsfólkið, það er þannig sem við hugsum þetta, að hægt sé að ráða það til nýrrar stofnunar vegna þess að mikilvægt er að hin nýja stofnun geti hafið starfsemi strax í sumar, að lögin taki gildi 1. júlí. Það er ekki gott að hafa óvissu ríkjandi í þessum mikilvæga málaflokki, þess vegna er þetta mjög mikilvægt.

Hv. þingmaður talaði um að ákvæðið sem ég kallaði bastarð í 17. gr. hefði komið inn 1992. Það er rétt að þá var Halldór Ásgrímsson formaður í efnahags- og viðskiptanefnd, þá í stjórnarandstöðu og stóð sig mjög vel eftir því sem mér skilst. Það má vel vera að hann hafi þarna leitað málamiðlana við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, en (Gripið fram í.) það er lítið til skriflegt um það hvernig ákvæðið komi inn, en það hefur a.m.k. ekki komið að miklu (Forseti hringir.) gagni.