131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:28]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekkert sérstaklega að velta fyrir mér starfsöryggi hins væntanlega forstjóra, mér finnst það ekki vera aðalatriði í málinu. Ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér hvort hin nýja stofnun verði ekki sjálfstæðari með því að forstjórinn heyri ekki beint undir ráðherra. Það kom fram áðan og er rétt að ég fór þar með rangt mál að hann var ekki ráðinn af ráðherra í upphafi, en hann heyrir þó beint undir ráðherra og er embættismaður eins og málið er í dag. Það er ekki nóg með að hann heyri beint undir ráðherra, heldur skipar viðskiptaráðherra allt samkeppnisráð án tilnefninga eins og þetta er í dag. Það vill svo til að af því það er enginn þarna sem hv. þingmenn geta tengt við stjórnarflokkana vita þeir ekki einu sinni hverjir eru í samkeppnisráði. Samt er alltaf verið að bera það á mig að ég sé með pólitísk afskipti og það séu náttúrlega mestar líkur á því að í stjórninni verði einhverjir flokkshestar og þar fram eftir götunum. Þetta er allt saman tómt bull.