131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:35]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir það með fyrirspyrjanda og svaranda, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og hæstv. utanríkisráðherra, að þetta eru athyglisverðar upplýsingar og þarft að fá þær hér fram til undirbyggingar upplýstri umræðu um þessi mál á Íslandi rétt eins og gerst hefur í Noregi. Niðurstaðan er sem sagt sú að sá málflutningur sem talsvert hefur vaðið uppi að löggjafarstarf í þeim löndum sem tengjast Evrópusamstarfinu á grundvelli EES-samningsins sé fyrst og fremst ljósritun á gerðum, tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu, hrynur til grunna með þessum upplýsingum. Í ljós kemur að þetta er öðru nær, satt best að segja er það mun minna sem beint þarf að taka upp í lög hér en maður hefði átt von á, að það skuli hafa gerst í 101 tilviki á þessu tíu ára tímabili EES-samningsins er auðvitað mjög lítið í ljósi þess að Alþingi hefur væntanlega afgreitt á milli 1.000 og 1.500 ef ekki hátt í 2.000 lagabreytingar á þeim tíma, samanber þá venju að hér er oft verið að afgreiða á annað hundrað frumvörp og gera þau að lögum.

Þetta dregur auðvitað fram og undirstrikar þann reginmun sem er á EES-samningnum með öllum hans kostum og göllum annars vegar (Gripið fram í.) og aðild hins vegar. Það er hárrétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sem var líka á móti fleiru í gamla daga, eins og erlendum her og öðru slíku. Þetta undirstrikar þann grundvallarmun sem er á aðild annars vegar og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hins vegar. (Gripið fram í.) Er ekki í lagi að segja það, hv. þingmaður?

Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að utan gildissviðs EES-samningsins er landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnan, tollamálin, Evrópusambandið sem tollabandalag, Ísland er undanþegið ákvæðum um heilbrigði dýra og plantna, Ísland þarf ekki að taka upp ákvæði um skipaskurði og járnbrautir og gasviðskipti og fleira þar fram eftir götunum. Það útskýrir auðvitað þann mikla mun sem er á fjölda (Forseti hringir.) bindandi ákvarðana Evrópusambandsins annars vegar og því sem við þurfum að taka upp í landsrétt okkar hins vegar.