131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:42]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn. Hún dregur fram það sem liggur fyrir og er svo sem vitað og hefur verið lengi. Mig langar, af því að menn eru að verða hér annaðhvort mjög æstir eða mjög glaðir yfir þessu svari, ég veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa því, að vitna í þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir á tímabilinu.“ — Þ.e. á síðustu tíu árum. — „Hafa ber í huga að hér er um að ræða heildarfjölda þeirra gerða sem Evrópusambandið hefur samþykkt á tímabilinu, þar með talið gerðir sem felldar hafa verið brott eða hafa eingöngu tímabundið gildi. Jafnframt skal árétta að langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktar eru af Evrópusambandinu varða framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess en einnig er fjöldi gerða samþykktur á ári hverju er varða framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess, þar með talið tollamál.“

Ég fæ ekki betur séð — og ég vona að þeir sem hafa tjáð sig hér um málið hafi lesið þetta svar allvel, það er ekki mjög langt — en þessi 6,5%, sem gleðja mjög þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessum sal í dag, séu af heildarfjöldanum. En það hefur legið fyrir í u.þ.b. tíu ár að EES-samningurinn nær ekki til allrar starfsemi Evrópusambandsins, það liggur algjörlega fyrir. Það þarf því alla vega að reikna þessa prósentutölu upp á nýtt.

Hins vegar held ég að við getum þá látið þvargi lokið í nefndum Alþingis um að Brussel ráði öllu og að við gerum ekki annað hér en að innleiða gerðir frá Evrópusambandinu, því mikla og vonda og stóra bákni. Það er ekki lítið sem kvartað er undan því, hæstv. forseti, á venjulegum nefndarfundum á hinu háa Alþingi. Nú hljóta hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að taka glaðir við því litla sem kemur frá Evrópusambandinu.