131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:46]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka þátt í fögnuði manna yfir því að upplýsingarnar séu fram komnar. Það er afar gott fyrir umræðuna að þær upplýsingar liggi fyrir. Ég verð einnig að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvað kemur mönnum svona geysilega á óvart í umræðunni. Mér fannst koma fram hjá hv. málshefjanda að kjarni málsins væri að við hefðum ekki tekið allar gerðir Evrópusambandsins upp. Það þarf ekki að koma á óvart, við erum ekki í Evrópusambandinu. Þess vegna höfum við ekki tekið allar Evrópusambandsgerðirnar upp. Við höfum hins vegar tekið upp þær breytingar sem við höfum þurft að taka upp sökum þess að við höfum verið að koma á einsleitum markaði, þ.e. EES-samningurinn hefur það að meginstefnu að gera Evrópska efnahagssvæðið þannig úr garði að það gildi sem líkastar reglur á öllu svæðinu þó að við höfum farið aðra leið.

Ég hlýt því að spyrja hvort það komi mönnum sérstaklega á óvart í umræðunni að við skulum ekki hafa tekið upp allar reglugerðir sem samþykktar hafa verið í Brussel. Það kom mér ekkert sérstaklega á óvart af því að við erum ekki í Evrópusambandinu. EES-samningurinn tekur bara til tiltekins hluta af málinu. Við höfum staðið okkar plikt í þeim efnum og gerum það væntanlega áfram. Við munum ekki taka upp gerðir í landbúnaðarmálum, við munum ekki taka upp gerðir í sjávarútvegsmálum og fleiri málum eins og hér hefur verið rakið.

Það sem eftir stendur í umræðunni, a.m.k. hvað mig varðar, er að ég átta mig ekki á því hvað er svona stórkostlegt í þessu. Ég get hins vegar, ef mönnum líður betur, tekið þátt í hinum óskaplega fögnuði, það er mér alveg að meinalausu. En kjarninn er einfaldlega þessi: Við höfum tekið upp þær reglugerðir sem við höfum átt að taka upp. Við höfum skapað og breytt umhverfinu í viðskiptalífinu eins og við lofuðum að gera með því að undirgangast EES-samninginn. Að öðru leyti erum við ekki í Evrópusambandinu.