131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:48]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa spurt: Hvað kom svona á óvart? Það kom t.d. á óvart að við höfum hlustað á málflutning þingmanna Samfylkingarinnar mánuðum og árum saman sem hafa verið að fræða okkur um að það sé miklu betra frá sjónarhóli fullvalda ríkis að ganga í Evrópusambandið af því að við þurfum hvort sem er að taka yfir 80% af gerðum og tilskipunum Evrópusambandsins. Út á þetta hefur umræðan gengið. Menn hafa sagt: Við höfum engan aðgang að ákvarðanaferlinu og þess vegna er miklu skynsamlegra fyrir okkur sem fullvalda þjóð að ganga í Evrópusambandið. Þetta eru rökin.

Nú kemur á daginn, sem við auðvitað vissum, að við erum ekki að taka yfir 80%, við erum að taka yfir miklu, miklu minna. Þegar við skoðum þetta sem hlutfall af öllum gerðum, tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins er þetta brotabrot. Það er auðvitað það sem kemur á óvart, ætti a.m.k. að koma þeim á óvart sem hafa talað með allt öðrum hætti — nema menn hafi verið að tala gegn betri vitund, menn hafi verið að blekkja þjóðina með slíkum málflutningi. Ég ætla ekki að trúa því. Ég ætla einfaldlega að trúa því að upplýsingarnar hljóti að koma mönnum á óvart sem hingað til hafa haldið því fram að Íslendingar hafi verið að taka með sjálfvirkum hætti yfir allar gerðirnar og hafi hvergi komið neinum vörnum við.

Nú blasir við að svo er ekki, að þetta eru rangar upplýsingar. Goðsögnin er orðin blekking, við höfum séð að þetta er einfaldlega rangt. Eins og fram kom í máli hæstv. dómsmálaráðherra höfum við ótal leiðir til þess að hafa prýðilega aðkomu að ákvörðunarferlinu varðandi undirbúning að tilskipunum Evrópusambandsins. Það er með öðrum orðum ekkert sem knýr á um það að við göngum í Evrópusambandið. Við höldum fullveldi okkar með því fyrirkomulagi sem nú er, við höfum tekið og haft markaðsaðgang með EES-samningnum. Við höfum tekið það yfir sem við vildum og það er einfaldlega þannig sem við hljótum að starfa vegna þess að það þjónar íslenskum hagsmunum best og það blasir við. (Forseti hringir.) Blekkingin er algjör í málflutningnum og menn ættu að sjá það á svarinu að það er einfaldlega rangt sem haldið hefur verið fram að við séum einhver stimpilpúði fyrir Evrópusambandið.