131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:50]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spurði um hvað hefði komið á óvart í svarinu. Það er rétt sem fram hefur komið að það eru upplýsingar um að það er rangt sem haldið hefur verið fram af talsmönnum þess að Ísland gangi í Evrópusambandið að Íslendingar innleiði 80% af öllu regluverki Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Þessu hefur verið haldið fram fyrirvaralaust í 10 eða 11 ár, m.a. af þingmönnum Samfylkingarinnar.

Það sem kemur á óvart í svarinu er ekki bara það að áróðurinn var blekking, heldur hafa menn skotið gjörsamlega yfir markið í fyrirvaralausum áróðri sínum fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það sem kemur svo verulega á óvart er hversu lítill hluti af öllum gerðum Evrópusambandsins er innleiddur í íslenskan rétt.

Af því að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir vísaði til þess að í útreikningunum væri miðað við heildarfjölda þeirra gerða sem Evrópusambandið hefði sett frá sér, þá er það auðvitað gert. Enda hvernig hefur málflutningurinn verið frá Evrópusinnum, bæði innan þings og utan? Hann hefur verið sá að við Íslendingar innleiðum 80% af öllum lögum Evrópusambandsins í lagasafn Íslands án þess að gerðir séu neinir fyrirvarar á því.

Svo kemur hv. þingmaður upp í pontu í umræðunni og talar eins og páfinn og er jafnvel heilagri en hann í þessu sambandi og fer að gera þá fyrirvara núna sem hv. þingmaður hefur ekki séð ástæðu til að gera á síðustu tíu árum. (Gripið fram í.)

Það sem kemur á óvart í málinu, herra forseti, er að það stendur ekki steinn yfir steini og hefur ekki gert í áróðri Evrópusinna fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu á síðustu 10 eða 11 árum. (Forseti hringir.) Við Íslendingar erum ekki að stimpla neinar gerðir í þeim mæli sem haldið hefur verið fram á hinu háa Alþingi.