131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:25]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvert er vandamálið? spyr hv. þingmaður. Ég ætla að minna á hvað varð til þess að svokölluð viðskiptalífsnefnd var skipuð af mér. Það var vegna ástands á markaðnum, vegna þess að við vildum fara yfir það hvort væri ekki hægt að skipuleggja mál þannig og löggjöfina að við ættum léttara með að taka á fákeppni á markaði og ýmsu neikvæðu sem uppi var. Þessi nefnd skilar áliti. Formaður hennar var dósent við Háskóla Íslands, Gylfi Magnússon. Fyrsta atriðið sem gerð er tillaga um í því nefndaráliti er að taka á skipulagi samkeppnisyfirvalda. Þetta er gert af hálfu nefndar sem er skipuð af mér og formaður hennar er dósent við Háskóla Íslands.

Miðað við umræðuna sem hefur verið hér um þetta mál, mætti halda að þessi maður, þessi virti maður í háskólanum sé strengjabrúða í höndum viðskiptaráðherra. (LB: Það er ómerkilegt að skýla sér á bak við þetta.) Nú líður hv. þingmanni illa og það er gott. (LB: Þetta er mjög ómerkilegt.) Mjög gott að hv. þingmanni líði illa. (LB: Það er með ólíkindum að treysta sér ekki til að ...) Þetta er bara staðreynd málsins, svona er þetta og þetta er sannleikurinn í málinu. Þetta er fyrsta atriðið sem lagt er fram sem tillaga af hálfu nefndarinnar. (Gripið fram í.) Ég legg að sjálfsögðu til í þessu frumvarpi að farið verði að þessari tillögu, enda mun Samkeppnisstofnun styrkjast og hún verður sjálfstæðari eftir þessa breytingu. Þetta veit hv. þingmaður, hann þekkir það vel til þessara mála. Hann kýs út af pólitík að halda öðru fram.