131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:29]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þingmaður er mér í aðalatriðum sammála um aðdraganda þessa máls á sínum tíma og hvernig þetta var hugsað og uppbyggt. Það er alveg rétt að menn mátu það svo, ég held að það hafi verið raunsætt mat, að stærð hins íslenska markaðar eða öllu heldur smæð hans og eðli að ýmsu leyti og samsetning á þeim tíma, byði ósköp einfaldlega alls ekki upp á það að fara þá leið sem sums staðar er gert að hafa tiltekin stærðarmörk eða viðmiðunarmörk til að styðjast við og reyna að tryggja fjölbreytnina með beinum hætti af því tagi, heldur horfa á hegðun fyrirtækjanna og banna hvers kyns misbeitingu á markaðsráðandi stöðu.

C-liður 17. gr. verður líka að skoðast í því samhengi. Hann var m.a. rökstuddur með því að á þeim tíma voru enn þá mjög öflugar blokkir í íslensku viðskiptalífi, arfur liðins tíma af sögulegum ástæðum. Það var samvinnufélagsreksturinn öðrum megin og rekstur í einkageiranum hinum megin sem gekk undir ýmsum nöfnum og ég þarf ekki að fara með hér. Menn sögðu: Ja, það er nú ekki fyrirséð hvernig þróunin verður að þessu leyti. Ef þessar blokkir halda saman og jafnvel eflast í hinu nýja opna viðskiptaumhverfi verður nú kannski þröngt fyrir dyrum hjá smábændunum. Og verða þá ekki samkeppnisyfirvöld að hafa einhverja möguleika til að beita sér gagnvart aðstæðum?

Það er mikill misskilningur ef menn halda að einasta leiðin sem samkeppnisyfirvöld hefðu á grundvelli c-liðar 17. gr. gildandi laga sé að fara með illu að fyrirtækjunum. Sú leið var að sjálfsögðu líka rædd að samkeppnisyfirvöld gætu kallað aðila til viðræðna við sig og sagt: Hér stöndum við frammi fyrir aðstæðum sem eru mjög óæskilegar og við sjáum okkur knúna til þess að leggjast í rannsóknir og athuga hvort við verðum að aðhafast eitthvað, ef menn eru ekki fáanlegir til þess að gera tilteknar breytingar. Gott dæmi gæti verið sameiginleg innkaup olíufélaganna eða dreifing, að samkeppnisyfirvöld einfaldlega kalli þessa aðila við viðræðna og segi: Heyriði, drengir góðir, þetta gengur ekki, þessu verðum við að breyta. — Slíkir hlutir geta náðst fram í samkomulagi, þannig að það þarf ekki alltaf átök eða illindi.