131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:32]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að sú mynd sem blasir við okkur í dag er auðvitað að sumu leyti öðruvísi en var árið 1993 þegar lögin voru sett. Það sem líka hefur breyst er að nú er komin tólf ára reynsla á beitingu þessara laga, þess vegna höfum við kannski aðrar forsendur til að meta hvað eigi að vera í lögunum og hvað ekki.

Varðandi þau atriði sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur réttilega áhyggjur af, þ.e. að stórir aðilar á markaði séu svo fyrirferðarmiklir að það valdi samkeppnishamlandi áhrifum, þá hygg ég að þegar grannt er skoðað, vegið og metið hvaða úrræði séu viðeigandi í hverju tilviki nái ákvæði eins og bannákvæði samkeppnislaganna, ákvæði sem varða samráð, ákvæði sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu yfir afleiðingar þeirra aðstæðna sem upp geta komið vegna þess að einhverjir aðilar verða fyrirferðarmiklir á markaði.

Það er auðvitað líka rétt eins og kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að ákvæðið sem nú er í 18. gr. hefur auðvitað líka ákveðinn tilgang í því sambandi að tryggja að samruni fyrirtækja sem ýmist eru að ná markaðsráðandi stöðu eða auka markaðsráðandi stöðu sína þurfa að fara með mál sín í gegnum nálarauga samkeppnisyfirvalda, ef við getum orðað það svo. Það er því ekki eins og verið sé að kippa út úrræðum samkeppnisyfirvalda til þess að bregðast við samkeppnishömlum í samfélaginu. Menn mega ekki ganga svo langt að túlka þá breytingu sem hér er lögð til með þeim hætti.