131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:34]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stutta og markvissa ræðu, sérstaklega þessa sögulegu baksýn hans, skiptingu á Verðlagsstofnun yfir í Samkeppnisstofnun. Ég vil spyrja hann: Getur verið að menn hafi ekki klippt nógu skýrt þar á milli, milli verðlagseftirlits sem er lögbundið samráð og Samkeppnisstofnunar sem á að berjast gegn samráði?

Ég tel mig hafa fréttir af því að forstjóri Samkeppnisstofnunar hafi setið fundi um olíudreifingu og skiptingu sameiginlegra eigna með olíufurstunum lengi vel eftir að nýju lögin tóku gildi, sem er í rauninni samráð.

Þá vildi ég spyrja hv. þingmann um c-lið 17. gr. núgildandi laga, þ.e. að heimilt sé að grípa inn í aðstæður án sektar. Þannig er að fyrirtæki eru oft sameinuð til að ná fram hagræðingu og þá vex verðmæti þeirra en með því að skipta þeim upp gæti það þýtt minni verðmæti. 72. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar, svo með leyfi herra forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Gæti hv. þingmaður hugsað sér að þessi grein stæði áfram en með skaðabótarétti til þeirra sem tapa eignum sínum vegna þeirra aðgerða sem Samkeppnisstofnun gripi til vegna aðstæðna sem þeir eiga enga sök á?