131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:28]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að vera ósammála hv. þingmanni því kjarni málsins er sá að eftir að Samkeppnisstofnun afhjúpaði samsæri gegn neytendum þá er verið að veikja stofnunina og verið að veikja lögin. Þess vegna innti ég hv. þingmann sem á sínum tíma var starfsmaður Verslunarráðsins eftir því hvort hann sjálfur hefði talið að aðgerðir Samkeppnisstofnunar gegn olíufélögunum hefðu gengið of langt, eða eftir atvikum Verslunarráðsins á þeim tíma, því að það virðist sem svo að þessi veiking á stofnuninni og lögunum eigi sér eingöngu stuðningsmenn í einstökum talsmönnum atvinnulífsins sem sumir hverjir töldu að allt of langt hefði verið gengið gagnvart olíufélögunum. Ég held því að það sé mikilvægt að það komi fram hér við umræðuna. Sömuleiðis spyr ég hvort hv. þingmanni þyki það ekki óheppileg skilaboð til opinberra embættismanna að eftir að þeir hafa afhjúpað svo alvarlegt brot gegn almenningi í landinu sem samsæri gegn neytendum er þá sé niðurstaðan sú að skömmu síðar sé stofnun þeirra lögð niður og störf þeirra auglýst laus til umsóknar. (Gripið fram í.) Hvers konar skilaboð eru það til opinberra embættismanna sem náð hafa gríðarlegum árangri fyrir neytendur í landinu?