131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:37]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram langar og upplýsandi umræður um þingmálið sem hér er á dagskrá. Mér finnst að þær hafi leitt í ljós að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að hluti skýringarinnar á því að málið er fram komið í þeim búningi sem það er sé að hér sé einhvers konar hefndarherferð í gangi, að mönnum hafi ekki líkað hvernig þeir sem hafa stjórnað Samkeppnisstofnun hafa gengið fram. Það hlýtur að vera umhugsunarefni og ástæða til að ræða það í sölum Alþingis hvaða mál það eru á undanförnum árum sem hafa mesta athygli vakið í samfélaginu.

Í fyrsta lagi má nefna grænmetismálið sem skók samfélagið á sínum tíma. Síðan eru það auðvitað málefni olíufélaganna, sem er stærsta mál Samkeppnisstofnunar hingað til, hvað sem verður síðar, að ógleymdu máli sem Samkeppnisstofnun gafst upp á, sem voru málefni tryggingafélaganna.

Hvað skyldu þau fyrirtæki sem þarna eiga hlut að máli eiga sameiginlegt, alveg sérstaklega? Jú, þessi fyrirtæki tengjast meira en öll önnur fyrirtæki í samfélaginu stjórnmálaflokkum. Það hafa verið tengsl milli stjórnmálaflokkanna í landinu, sérstaklega stjórnarflokkanna, við þau fyrirtæki sem ég taldi upp. Um það verður auðvitað ekki deilt. Ég nefndi grænmetismálið en þau fyrirtæki sem hafa verið rekin í landbúnaði í tengslum við framleiðslu landbúnaðarafurða í landinu hafa mörg hver tengst einum stjórnmálaflokki sérstaklega og reyndar tveimur stjórnmálaflokkum nokkuð. Framsóknarflokkurinn hefur þar verið fremstur í flokki en Sjálfstæðisflokkurinn átt verulegan hlut að máli.

Það er að mínu viti ekki tilviljun að mönnum hefur þótt ástæða til að fara í endurskoðun á hlutverki Samkeppnisstofnunar, sem lagði til atlögu við öll þessi fyrirtæki. Fyrst voru það grænmetisfyrirtækin. Að vísu ætlaði Samkeppnisstofnun sér að taka málefni tryggingafélaganna fyrir áður en það tók of langan tíma að vinna að þeim verkefnum og það tókst ekki að sannfæra stjórnvöld um að það þyrfti meiri peninga til starfsemi Samkeppnisstofnunar til að geta unnið að þeim málum sem lægju fyrir. Stofnunin gafst bókstaflega upp á því máli, vegna þess hve langan tíma það hafði tekið. En það er ekki vafi á því að tryggingafélögin hefðu ekki síður átt að fá á sig dóm fyrir samráð en olíufélögin. Um það get ég persónulega vitnað og fjöldi annarra sem hafa átt samskipti við tryggingafélögin á undanförnum árum. (Gripið fram í: Er ekki dómstólanna að dæma um það?) Dómstólarnir fengu ekki tækifæri til að dæma vegna þess að Samkeppnisstofnun fékk ekki peninga til að vinna að málum með þeim hætti að hún gæti komið þeim frá sér. Þannig var það mál vaxið.

Það er auðvitað skömm að þessu fyrir hv. Alþingi, þar sem menn vissu vel að það var verið að vinna að þessum málum og vissu vel að það vantaði fjármuni til að það væri hægt að klára þau málefni með þeim hætti sem til þurfti.

Hér hefur staðið yfir umræða um það hvort verið væri að veikja eða styrkja samkeppnisyfirvöld í landinu. Þau á reyndar að brjóta upp í fleiri en eina stofnun sem kann að vera skynsamlegt. En hitt er annað mál sem getur varla farið á milli mála að það getur ekki talist styrking að setja þann sem á að bera mesta ábyrgð á framkvæmd mála undir þriggja manna pólitískt kjörna yfirstjórn. Ég hélt að ekki væri hægt að þræta um slíkt. Það getur ekki verið fólgin í því nein styrking stofnunarinnar.

Það er ekki þannig að ég hafi lesið þetta mál svo vel að ég ætli að fara í fræðilegar þrætur um hvað sé skynsamlegast af þeim ákvæðum sem hér hafa verið til umræðu og felast í þessu lagafrumvarpi. Ég ætla hins vegar að koma að öðru máli sem mér finnst ástæða til að ræða, sem er tvískinnungshátturinn sem ríkir hér í sölunum gagnvart samkeppni yfirleitt. Hér geta menn velt sér upp úr því hvað sé best að gera til þess að tryggja samkeppni í landinu en á sama tíma er tryggt að samkeppni kemst ekki á í heilu atvinnugreinunum. Það er nákvæmlega enginn áhugi fyrir því að sú samkeppni verði nokkurn tíma til staðar.

Þar mætti telja upp ýmislegt en þar eru auðvitað landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn efst á blaði. Í sjávarútveginum hafa ríkjandi stjórnvöld t.d. ekki viljað hlusta á að tekin verði upp eðlileg samkeppni um þann fisk sem kemur að landi og hann komi á markað. Um það er ekki að ræða. Samkeppnisstofnun hefur t.d. ekki treyst sér til þess að fjalla um það mál. Hvers vegna? Er það ekki á verksviði hennar? Auðvitað er það af pólitískum ástæðum.

Hér hafa stjórnvöld ekki viljað ræða um tillögur sem hafa verið settar fram um að skilið verði á milli útgerðar og fiskvinnslu með einhverjum þeim hætti að til yrði almennilegt samkeppnisumhverfi um þann fisk sem að landi kemur. Hvernig skyldi standa á þessu? Og hvernig er það í landbúnaðinum? Það er með sama hætti þar. Þar má ekki til þess hugsa að til verði einhvers konar samkeppnisumhverfi. Þar á að stýra öllu. Hvað er núna t.d. að gerast þar? Helsta hugsjón manna í sambandi við mjólkurframleiðslu í þessu landi núna er að búa til eitt fyrirtæki sem kaupi allar afurðir af bændum og selji þær allar út á markaðinn. Þetta er sú hugmynd sem er á ferðinni núna í því landi þar sem menn standa hér í ræðustólum og velta því gaumgæfilega fyrir sér hvernig eigi að standa að því að búa til samkeppnisreglur fyrir — fyrir hverja? (Gripið fram í.) Alla vega ekki fyrir sjávarútveginn og ekki landbúnaðinn.

Ég taldi áðan upp þrjú fyrirtækjasvið, í fyrsta lagi grænmetið þar sem menn urðu uppvísir að samráði og þurftu að borga sektir, olíuna þar sem menn hafa orðið uppvísir líka að samráði og hafa auðvitað þurft að borga sektir. Því máli er að vísu ekki lokið fullkomlega. Þó liggur fyrir að þær sektir eru miklu lægri en sá ávinningur sem talið er að fyrirtækin hafi haft þessari starfsemi sinni. Síðan nefndi ég tryggingafélögin sem hafa sloppið. Þetta eru allt saman fyrirtækjahópar sem tengjast með sérstökum hætti stjórnmálaflokkunum í landinu. Tryggingafélögin hafa verið undir sérstökum verndarvæng stjórnvalda alla tíð. Þau hafa fengið sérstakt starfsumhverfi þar sem þau hafa getað myndað sjóði sem þau hafa síðan getað notað til þess að græða á í fjármálaumhverfinu í þessu landi, á lánastarfsemi og öðru slíku. Ég ætla bara að segja þá sögu.

Ég kom nálægt sjávarútvegi töluvert í mörg ár og ég átti samskipti við fjöldamarga útgerðarmenn. Við þurftum oft að ganga frá málum við tryggingafélög. Þessum mönnum var enginn kostur gerður á því að flytja sig milli tryggingafélaga. Ef þú áttir skip af þessari gerð og varst á þessum stað þá skyldir þú sko vera hjá þessu tryggingafélagi. Og færu menn eitthvert annað og færu að bera sig upp með það að þeir hefðu nú áhuga á því að flytja sig milli tryggingafélaga þá var þeim bara sagt góðlátlega að það væri ekki á verksviði viðkomandi að taka þá inn. Síðan voru gerðir samningar um viðhald á skipunum sem tryggingafélögin borguðu. Þetta var allt svona. Ég er algjörlega sannfærður um að það var samráð á milli tryggingafélaganna um þetta einfaldlega vegna þess að svo margir af þessum mönnum sem sögðu mér frá tilraunum sínum til þess að fá betri samninga við önnur tryggingafélög voru ævinlega gerðir afturreka.

Olíufélögin, hvernig voru þau? Ég þekki það líka persónulega. Ég hef sjálfur gert tilraunir til þess að fá samning við olíufélag um mín viðskipti. Það var ekki til í dæminu að hægt væri að fá einhvers konar samning um slíkt. Það var bara sagt: „Við veitum þér hina bestu þjónustu ef þú kemur.“ En það var ekki hægt að fá tilboð af neinu tagi og það var aldrei með neinum hætti komið til móts við viðskiptavini olíufélaganna með einhverri vild. Það var ekki þannig af því að það var auðvitað á ferðinni samráð um það að menn skyldu ekki keppna um viðskiptavinina í öðru en einhvers konar þjónustu sem væri fólgin í öðru en olíuverðinu. Þannig var þetta.

Ekki þekki ég nú grænmetið nógu vel. En það var upplýst hér í því máli að þar höfðu menn aldeilis haft samráð um það hvernig verðlagningin fór fram. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þennan hluta. Ég ætla þó að segja að í sölum Alþingis bera menn býsna mikla ábyrgð á þessu ástandi einfaldlega vegna þess að þessi fyrirtækjahópar hafa verið svona undir verndarvængnum.

Ég ætla að snúa mér aðeins aftur að sjávarútveginum. Hvernig skyldi það hafa verið þegar menn sem bera mikla ábyrgð á viðskiptaumhverfinu í landinu þurftu að taka afstöðu til þess að koma hér á þessu svokallaða kvótakerfi og úthlutunum kvóta sem mátti svo selja á markaði? Skyldu þeir einhvern tíma hafa velt því fyrir sér hvers konar samkeppnisumhverfi þeir væru að skapa? Er ekki t.d. hollt að velta því fyrir sér hvers virði veiðirétturinn er á markaði núna? Veiðirétturinn er líklega einhvers staðar á milli 350 og 400 eða 450 milljarða virði í dag. Þegar þessi veiðiréttur var búinn til og þeim sem fengu hann í hendur gefinn kostur á því að geta selt hann til þeirra sem vildu koma inn í sjávarútveginn, hvað gerðist þá? Hvers konar samkeppnisaðstöðu fengu þá hinir sem höfðu haft áhuga á því að koma inn í þessa atvinnugrein? Þeir þurftu að keppa við fyrirtækin sem fyrir voru í greininni sem var verið að rétta alla þessa fjármuni í raun. Svo eru menn að velta því upp í dag hve vel þeir hafi staðið sig sem standa upp úr í útgerð í dag. Haldið þið að það sé nú ekki ágætt að fá í tannfé í samkeppninni við þá sem vildu koma inn í atvinnugrein aðrar eins formúur og virði kvótans var og er? Þetta er nú það samkeppnisumhverfi sem Alþingi ákvað að skapa þarna.

Ætli það megi ekki segja líka að í landbúnaðinum sé það svipað, að kvótasetningin í landbúnaði og það að mega selja þau réttindi öðrum bændum hafi valdið því að þeir sem vildu koma inn í atvinnugreinina þyrftu að keppa við tannfé sem ríkisvaldið hefur skákað til þeirra sem fyrir voru upp á æðimarga milljarða ábyggilega að núvirði?

Þetta er nú undarlegt samkeppnisumhverfi sem stjórnvöld skapa og hefði nú verið ástæða til þess að menn hefðu nú kannski velt því svolítið fyrir sér hvað þeir væru nú að gera með þessum inngripum í atvinnulífið sem þarna eru á ferðinni og hvort þetta væri eðlilegt, hvort þetta bryti ekki í bága við samkeppnishugmyndir og hugsun á bak við það að búa til eðlilega samkeppni í samfélaginu. Nei, nei, menn hafa ekki haft neinar áhyggjur af þessu. Þetta hefur bara verið fínt. Ríkisvaldið býr bara til peninga handa þeim sem eru í atvinnugreinunum og hinir skulu „vær så god“ bara keppa við það. Þetta er víst í fína lagi. Svo geta menn haldið hér langar ræður um það nákvæmlega hvernig eigi að búa til samkeppnisumhverfi. En það eru ekki miklar áhyggjur af þessu samkeppnisumhverfi.

Síðan er það líka undarlegt hvað varðar þá ríkisstjórn sem nú situr að þegar um er að ræða auðlindir og möguleika til þess að nýta þær þá hafa menn ævinlega fundið einhverjar handvirkar leiðir handa ráðherrum ríkisstjórnarinnar til þess að úthluta. Sérstaklega hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra fengið það hlutverk að úthluta aðilum réttinum til þess að nýta auðlindir landsins, á hafsbotni og aðrar auðlindir sem hægt er að virkja eða nýta í landinu.

Samgönguráðherra hefur líka svona heimildir. Og hvað hefur verið samþykkt helst? Það hefur verið um það að ræða að ráðherra skeri úr um það hverjir eigi að fá þetta. Það á að búa til alveg sérstakan forgang fyrir þá sem rannsaka auðlindirnar. Það má aldrei — það er nefnilega vandinn í málinu. Það er svolítið sérkennilegt, sérstaklega hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn — það má aldrei skera úr um það á markaði hver eigi að fá þetta. Það er svolítið furðulegt. Maður hefði nú haldið að sjálfstæðismenn hefðu haft áhuga á því að það væri nú gert. (Gripið fram í: Þá er ekki víst að réttur aðili fái.) Það er mikil spurning hvað það er sem menn vilja fá fram með þessu.

Nú er það þannig að í áratugi hefur ríkisvaldið verið að koma réttindum til þess að vinna fyrir ríkið og annað slíkt þannig fyrir að þar eru útboð notuð að langmestu leyti og menn eru alveg sáttir við það. Til dæmis þegar verið er að bjóða út vegagerð eða eitthvað slíkt þá finnst mönnum sjálfsagt að þetta sé gert með útboðum. Kærumálin eru bara uppi um leið og ef einhverjum smáverkum er jafnvel bætt við svona í hagræðisskyni þá eru uppi kærumál eins og skot því að mönnum finnst þetta vera einhver regla sem á algjörlega að vera. En þegar kemur að auðlindum sem ríkisvaldið er að úthluta þá finnst mönnum bara sjálfsagt að það sé bara gert með einhverjum svona fegurðarsamkeppnum eða einhverju vali sem ráðherra á að skera úr um. Ráðherra vill ekki einu sinni hafa reglur sem gera honum kleift að bjóða þetta út, svona ef það kemur upp einhver vandi. Nei, nei, þetta á bara vera svona. Það á bara að vera þannig að hæstv. ráðherra úthlutar ef það verða fleiri en einn eða tveir sem vilja fá réttindin.

Þessi hugsunarháttur er undarlegur. Mér finnst að útrýma þurfi úr lagasetningu á Alþingi reglum þar sem menn líta fram hjá jafnræði þegnanna til þess að nýta réttinn. En þetta hefur sú hæstvirt ríkisstjórn sem nú situr alveg stundað sérstaklega, þ.e. að koma á reglum þar sem hefur verið reynt að finna leiðir fram hjá þessu. Það má finna þetta í fjarskiptalögum og það má finna þetta í lögum um auðlindir á hafsbotni. Það má finna þetta í lagafrumvörpum eins og þeim sem liggja núna fyrir um jarðrænar auðlindir og það má finna þetta í vatnalögum. Alls staðar á leiðin að vera sú að skera úr með einhverjum hætti, en menn forðast eins og heitan eldinn að hægt verði að taka á þessum málum eða að sett sé á skylda til þess að taka á þessum málum út frá jafnræðissjónarmiðum þar sem allir standi jafnir gagnvart því að bjóða þá bara í þau réttindi sem um er að ræða. Þetta finnst mönnum hins vegar algjörlega sjálfsagt (Forseti hringir.) í atvinnugreinum eins og það að þjónusta ...

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þingmann afsökunar á því að grípa inn í en vil inna hann eftir því hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni því áformað er að gera núna hlé á fundinum milli klukkan eitt og tvö. Þegar hefur einn hv. þingmaður beðið um andsvar við ræðu hv. þingmanns þannig að ef hann nær að ljúka máli sínu á næstu fimm mínútum mundi forseti hafa biðlund en ella vill hann biðja hv. þingmann að gera hlé á sínu máli.)

Hæstv. forseti. Ég á nú ekki mjög langt eftir af ræðu minni. Þó er ákveðinn kafli eftir sem ekki duga fimm mínútur til þess að halda þannig að ég þigg það þá að hæstv. forseti fresti fundi.

(Forseti (GÁS): Forseti þakkar hv. þingmanni fyrir hans viðbrögð. Nú verður gert hlé á ræðu hans og enn fremur á þessum fundi og honum fram haldið klukkan tvö.)