131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Olíugjald og kílómetragjald.

807. mál
[14:08]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hæstv. fjármálaráðherra þarf að koma með frumvarp til Alþingis til að laga frumvarpið um olíugjald. Hann nefndi að þungaskattskerfið væri meingallað, ég veit þá ekki hvað kalla á væntanlegt olíugjaldskerfi.

Ég vil í þessu stutta andsvari spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það hvort ekki hafi komið til tals að taka virðisaukaskattinn sem hann ætlar að taka af olíugjaldinu og færa til Vegagerðarinnar líka sem þýddi ef olíugjaldið og virðisaukaskatturinn kæmi þangað að fara mætti með olíugjaldið ofan í 40,50 kr. með virðisaukaskatti og hafa áfram sömu tekjur til Vegagerðarinnar eða um 1.660 milljónir það sem eftir lifir þessa árs, þ.e. frá 1. júlí.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að notendur borguðu ekki virðisaukaskatt af þungaskattskerfinu. Nú boðar hæstv. fjármálaráðherra, og það hefur verið samþykkt á Alþingi, að virðisaukaskattur komi ofan á þessar 45 kr. og þannig er það 1 milljarður á ári sem notendur olíu á bíla munu greiða aukalega sem fer beint í ríkissjóð eins og búið er að eyrnamerkja þetta núna.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er þessi: Ef virðisaukaskatturinn og olíugjaldið færi allt til Vegagerðarinnar mætti fara með olíugjaldið ofan í rúmar 40 kr. og það mundi þýða að dísilolíuverð yrði í kringum 92–93 kr. núna og þá væri markmiðum þeirrar kerfisbreytingar náð sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir, þ.e. að hafa þennan mun á olíuverði og bensínverði. En þrátt fyrir þessa litlu breytingu verður dísilolían samt 3–5 kr. dýrari en bensín, sama hvort það er með fullri þjónustu eða á sjálfsafgreiðslustöðvum.