131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Olíugjald og kílómetragjald.

807. mál
[14:10]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar sem hann fór með síðast, en það sem gerist með þessu frumvarpi er að olíugjald plús virðisaukaskattur mun lækka úr 56 kr. á lítrann ofan í 51 kr. Síðan hafa menn það fyrir augum sér á hverjum degi á bensínstöðinni hvað dísilolían kostar í dag og síðan má gera ráð fyrir einhverri þóknun olíufélaganna á lítrann, geri ég ráð fyrir, sem ég veit þó auðvitað ekkert um hver verður.

Þingmaðurinn spurði: Væri ekki hægt að gera ýmislegt við þessa peninga hjá Vegagerðinni ef þetta væri fært þangað, olíugjaldið og virðisaukaskatturinn? Það má svara þessu eins og hverju öðru: Væri ekki hægt að gera ýmislegt ef menn væru aldrei að hugsa um hagsmuni ríkissjóðs? Væri ekki hægt að gera ýmislegt með því að taka þá peninga sem nú renna í ríkissjóð og setja þá í eitthvert annað? Auðvitað væri það hægt en það er ekki það sem við erum að gera hér og þetta frumvarp snýst ekki um það.

Það verður að hafa í huga, virðulegi forseti, að samhliða þessari breytingu sem samþykkt var í fyrra þegar olíugjaldskerfið var tekið upp, var gerð innbyrðis breyting á almenna bensíngjaldinu sem rennur í ríkissjóð og hinu sérstaka bensíngjaldi sem rennur til vegamála. Hvernig var sú breyting? Jú, hún var sú að almenna gjaldið var lækkað og sérstaka gjaldið til vegamála hækkað til þess að vegamálin, vegasjóður og Vegagerðin kæmu á sléttu út úr þessu þannig að olíugjaldskerfið hefði ekki áhrif á tekjuöflun Vegagerðarinnar, hún kæmi á sléttu út úr því og það er væntanlega það sem við öll viljum hér.

Hagsmunir Vegagerðarinnar eru náttúrlega annað mál en sú kerfisbreyting í gjaldtöku sem við erum að fara út í. Með olíugjaldinu erum við að taka upp skynsamlegri gjaldtöku, sem hefur tíðkast í nálægum löndum um margra ára skeið, og við eigum ekki að láta þá staðreynd að sumpart séu tekjur af umferð látnar renna til vegamála hafa áhrif á afstöðu okkar í því máli. Það er fullt af tekjum af umferðinni sem ekki renna til vegamála og þannig verður það auðvitað áfram eins og við vitum, þar á meðal er virðisaukaskatturinn.