131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:46]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt talsvert um samkeppnismálin og fer trúlega að líða að lokum þeirrar umræðu en ég ætla að fá að segja nokkur orð um þau í lokin þegar ljóst er að stjórnarmeirihlutinn ætlar að knýja þetta sorglega mál í gegnum þingið á lokadögum þess og auðvitað er ástæða til að harma það í upphafi máls.

Rétt áðan í svari sínu til mín staðfesti hv. þm. Birgir Ármannsson að hann, fyrir liðlega þremur árum, þá starfsmaður Verslunarráðsins og með Verslunarráðinu, hefði talið að Samkeppnisstofnun hefði farið langt yfir strikið í aðgerðum sínum gegn olíufélögunum í landinu. Verslunarráðið taldi að Samkeppnisstofnun ætti að skila gögnunum sem hún hafði tekið og Verslunarráðið taldi mikilvægt að svona lagað endurtæki sig ekki, eins og Vilhjálmur Egilsson, þáverandi hv. þm. Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, orðaði það sjálfur í viðtölum, mikilvægt að svona lagað endurtæki sig ekki. En Samkeppnisstofnun vann sín mál fyrir dómum og svipti hulunni af samsæri gegn neytendum í landinu upp á milljarða króna. Lyktir þess máls eru þær að á Alþingi á að setja lög sem þessu fyrrnefnda Verslunarráði eru mjög að skapi en eru öndverð skoðunum Samkeppnisstofnunar. Lyktir þessa máls eru þær að leggja á niður stofnunina sem gekk svona fram með hagsmuni almennings að leiðarljósi og auglýsa störf stjórnendanna laus til umsóknar. Virðulegur forseti. Grímulausari verður sérhagsmunagæslan á hinu háa Alþingi ekki. Það er algerlega kýrskýrt hverjum manni hvaða leiðangur er hér á ferðinni.

Það þótti sem sagt að Samkeppnisstofnun léki lausum hala og hefði óhóflegar heimildir og færi langt yfir strikið og nú eru sett lög til að leggja stofnunina niður, til að auglýsa störf stjórnendanna laus til umsóknar og til að veikja valdheimildir stofnunarinnar. Jafnvel þær heimildir sem lagt var upp með í þennan leiðangur, svo sem um að heimila húsleit á heimilum forstjóra fyrirtækja sem standa að ólöglegum aðgerðum eins og þeim sem olíufélögin voru staðin að, jafnvel slíkar heimildir hafa verið teknar út úr málinu.

Hvernig staðið er að veikingunni hefur efnislega verið rakið ágætlega vel í umræðunni en samt er full ástæða til að fara lítillega yfir nokkur af þeim atriðum. Það er auðvitað í fyrsta lagi gert með þeim einföldu skilaboðum að í stað þess að standa á bak við stofnunina sem svipti hulunni af samsæri gegn neytendum í landinu og láta til hennar aukið fé og hafa samráð við hana um hvernig best væri hægt að efla stjórnsýslu og lagaumhverfi samkeppnismála í landinu þá er stofnunin lögð niður og nánast ekkert samráð við hana haft. Af umsögn hennar er alveg augljóst að þessir færustu sérfræðingar okkar og það fólk sem þar hefur starfað árum saman að hagsmunum neytenda í landinu er að litlu haft. Það er helst að hlustað sé á talsmenn Verslunarráðsins af umsagnaraðilum. Ekkert tillit er tekið til þeirra athugasemda eða breytingar gerðar um efnisatriði sem máli skipta úr umsögnum aðila eins og Neytendasamtakanna og stéttarfélaganna og annarra sem gæta eiga hagsmuna venjulegs fólks í landinu. (Gripið fram í.) En þeim mun betur hlustað á fulltrúa Verslunarráðsins sem fóru í mikinn leiðangur, hv. þm. Pétur Blöndal, til að ráðast að Samkeppnisstofnun, til að mótmæla því að menn leyfðu sér að snerta olíufélögin vegna þess að það mátti ekki, hv. þm. Pétur Blöndal, snerta olíufélögin því þau voru heilagar kýr. Það er alveg ljóst hvað menn uppskera fyrir að snerta heilagar kýr hjá stjórnarliðunum. Þeir uppskera það að stofnunin er lögð niður og störf þeirra eru auglýst laus til umsóknar. Þetta er ekkert mikið flóknara. En það mun auðvitað reyna á það í atkvæðagreiðslum vegna þess að við höfum kynnt breytingartillögu sem lýtur að því að eins verði staðið að ráðningu forstjóra Samkeppniseftirlitsins og Samkeppnisstofnunar á sínum tíma og að starfandi forstjóri í þeirri stofnun verði ráðinn til þess starfs beint eins og menn samþykktu þá. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslu um þá breytingartillögu hvort það er sannarlega svo að þessi leiðangur sé sérstaklega gerður út til að geta lagt niður störf þessa fólks sem gekk svo hart fram gegn olíufélögunum. Það sýnir sig þá hvort hv. þm. Pétur Blöndal ætlar við atkvæðagreiðslu að standa á bak við það fólk sem þannig svipti hulunni af samsæri gegn neytendum upp á milljarða króna. Það skiptir miklu máli að við þingmenn stöndum á bak við embættismenn sem ganga þannig fram af trúmennsku og svipta hulunni af samsæri gegn fólkinu í landinu. Það skiptir ansi miklu máli.

Við höfum líka fjallað um það hvernig hið pólitíska vald er aukið yfir Samkeppniseftirlitinu frá því sem áður var með Samkeppnisstofnun, ekki aðeins í því óttavaldi sem hæstv. ráðherra skapar sér með því að leggja niður stofnun og störf manna, því að auðvitað eru það skilaboð til hinna nýráðnu um að þeir skuli heldur feta hinn þrönga veginn og hlusta eftir því hvað sagt er í hinu pólitíska landslagi. En án þess að ég ætli að gera hæstv. ráðherra það upp að hann hyggist hafa bein pólitísk afskipti af starfsemi stofnunarinnar þá er alveg ljóst að það skjól sem stjórnendur hennar hafa er minna en það sem er í Samkeppnisstofnun í dag því að ráðningu forstjóra hinnar nýju stofnunar er einfaldlega háttað með öðrum hætti en Samkeppnisstofnunar í dag og þar af leiðandi er staða hans veikari.

Það vekur líka sérstaka athygli að draga eigi úr hæfiskröfum og falla frá hæfiskröfum til stjórnarmanna í hinni nýju stofnun frá því sem nú er í þeirri stofnun sem er í dag. Við vitum öll hvers vegna við gerum hæfiskröfur í tilfellum sem þessum. Það er til að tryggja að þar komi að hinir bestu fáanlegu fagmenn sem við eigum á hverju sviði. Hvers vegna gerum við það? Vegna þess m.a. að við treystum því að fagfólk með mikla hæfni, mikla reynslu og menntun og sem hefur náð árangri á sínu sviði er líklegast til að taka ekki bara réttar ákvarðanir heldur líka sjálfstæðar ákvarðanir. Þess vegna gerum við til að mynda miklar hæfiskröfur til dómara og annarra úrskurðaraðila af ýmsu tagi og þess vegna höfum við gert miklar kröfur um hæfi stjórnarmanna í Samkeppnisstofnun vegna þess að við höfum viljað tryggja sjálfstæði stofnunarinnar. Nú þegar dregið er úr þeim kröfum og ráðherra á að skipa þriggja manna stjórn sem gæta á meðalhófs í rekstri hinnar nýju stofnunar hljótum við um leið að rifja upp deilur Verslunarráðsins sem þetta frumvarp virðist helst vera flutt fyrir — það eru aðeins Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins sem mæla frumvarpinu bót af umsagnaraðilum — að afstaða Verslunarráðsins var alveg skýr, að aðgerðirnar gegn olíufélögunum færu langt út yfir allt meðalhóf. Það er því alveg ljóst í mínum huga að ef stjórnarmennirnir í hinu nýja Samkeppniseftirliti eru eitthvað á svipuðum nótum og Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins og þeir sem nú virðast helst eiga eyru stjórnarliðsins þá verður auðvitað ekki farið í aðgerðir eins og farið var í gegn olíufélögunum. Það skyldi þó ekki vera tilgangurinn með því sem hér er fram sett að tryggja að aðhaldið og eftirlitið með stórfyrirtækjunum fari ekki langt yfir strikið eins og Verslunarráðið sagði um aðgerðirnar gegn olíufélögunum? Það skyldi þó ekki vera tilgangurinn að koma í veg fyrir að svona lagað eins og með olíufélögin endurtaki sig, svo notuð séu orð Vilhjálms Egilssonar, hv. fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóra Verslunarráðsins, um þau ægilegu mistök Samkeppnisstofnunar að leyfa sér að fara inn í olíufélögin.

Ég held að engum blandist hugur um með hvaða hætti þetta mál er lagt upp. Svo augljóst er hve illa er hér haldið á hagsmunum neytenda. Við ættum ekki að vera að þrátta um það hér hvort stjórnendur Samkeppnisstofnunar fái að halda vinnunni. Við ættum ekki að vera að þrátta um hvers vegna ekki er tekið mið af athugasemdum og ábendingum stjórnenda Samkeppnisstofnunar. Við ættum einfaldlega að fara að ráðum stjórnenda Samkeppnisstofnunar um það hvernig við getum eflt eftirlitið og sett í það meiri peninga, en það er alveg ljóst að þessari stofnun hefur verið haldið niðri í fjárveitingum um árabil. Þó er hún ein þeirra fáu stofnana sem þrátt fyrir að hafa takmarkaðar fjárheimildir fer ekki yfir fjárveitingar, fer að lögum um ríkisfjármál og fjárreiðulögin og heldur sig innan sinna takmörkuðu heimilda en er þó ekki umbunað fyrir að standa sig svo vel í rekstri heldur hefur henni verið haldið í óbreyttum framlögum, miðað við launakostnað, árum saman. Á fundi fjárlaganefndar síðastliðið haust þegar olíumálið var komið upp upplýsti forstjóri Samkeppnisstofnunar að það vantaði 100 milljónir í reksturinn til að stofnunin gæti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Hvað var gert með það? Ekki neitt. Það var ekkert gert með það. Það komu engar 100 milljónir inn í þennan rekstur. En eins og hv. þingmenn vita bannaði fjármálaráðuneytið ríkisstofnunum sérstaklega að ganga á fund fjárlaganefndar og greina frá fjárþörf til einstakra verkefna og kannski það sé hluti af þessu óþægilega sjálfstæði Samkeppnisstofnunar og stjórnenda hennar að þeir hafa ekkert legið á því að fjármuni vanti til að standa undir lágmarkseftirliti með samsærum gegn neytendum og það vanti til þess verulega fjármuni. Það er auðvitað skylda þeirra að vekja athygli á því og mikilvægt fyrir skattgreiðendur í landinu að vita ef vantar upp á fjárveitingar í málaflokkinn.

Virðulegi forseti. Ég veit í sjálfu sér ekki hvað það tjóir að ræða málið áfram. Það hefur verið rakið ágætlega efnislega af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir okkar leyti sem sátum fyrir hönd Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd við umfjöllun málsins. Sömuleiðis liggur fyrir að það er algerlega staðfastur vilji stjórnarmeirihlutans að knýja málið í gegn og gera engar breytingar á því nema ef vera skyldi að Verslunarráðinu dytti eitthvað í hug á síðustu metrunum sem bæta þyrfti úr í frumvarpinu, ég skal ekki útiloka að tillit yrði tekið til þess. En ég held að við munum sjá í afgreiðslu á breytingartillögu okkar varðandi ráðningu forstjóra hins nýja eftirlits hvort það er ekki í raun og veru svo að hér sé verið að leggja upp í leiðangur til að skipta um karlinn í brúnni af því að hann hafi ekki þótt sigla þann kúrs sem stjórnarflokkunum að ógleymdu hæstv. Verslunarráðinu hefur verið þóknanlegur í málefnum samkeppni og samsæra gegn neytendum.