131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:04]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla um önnur atriði í þessu frumvarpi en hæst hefur borið í umræðunni í dag og síðustu daga þegar þetta mál hefur verið til umfjöllunar. Ég ætla í rauninni að árétta það sem ég sagði um eitt atriði þessa frumvarps við 1. umr.

Það á að vera alger grundvallarregla við lagasetningu og lagasmíð að þegar menn semja lagafrumvörp, sem ætlast er til að verði samþykkt og felld inn í íslensk lög, að lögin séu skiljanleg þeim sem þau lesa, séu skýr gagnvart þeim sem þurfa að vinna eftir lögunum og hlíta þeim. Þetta eru almenn sjónarmið sem eru viðtekin varðandi lagasetningu en skipta mestu máli þegar löggjafarvaldið setur reglur sem eru íþyngjandi gagnvart borgurunum og ekki síður þegar lögin fela í sér refsiheimildir fyrir hið opinbera.

Þetta frumvarp er að mínu mati skiljanlegt og skýrt að mestu leyti en því miður ekki að öllu leyti. Þegar 22. gr. frumvarpsins er skoðuð kemur þar fram, með leyfi forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hjá íslenskum aðilum enda sé fylgt þeim starfsreglum sem settar eru í bókun 3 og bókun 4 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA um störf og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar og samkeppni. Fulltrúum Eftirlitsstofnunar EFTA og fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem fjalla um samkeppnismál, er heimilt að vera viðstaddir og taka þátt í vettvangsrannsóknum sem Samkeppniseftirlitið framkvæmir innan þeirra marka sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fylgisamningar hans setja. Sama gildir um rétt fulltrúa Samkeppniseftirlitsins og framkvæmdastjórnar EB þegar Eftirlitsstofnun EFTA framkvæmir vettvangsrannsóknir hér á landi.“

Þetta ákvæði er ekki skýrt. Þegar menn lesa það, þegar hinn almenni borgari les þetta ákvæði án þess að glugga í greinargerð með frumvarpinu þá er honum ómögulegt að átta sig á því hvert efni þessa ákvæðis er. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu.

Ég nefndi í 1. umr. um frumvarpið að mikilvægt væri að ákvæði 22. gr. yrði tekið upp og það endurskoðað með það að markmiði að fella þau efnisákvæði sem greininni er ætlað að ná fram inn í lagatextann. Þetta ákvæði fjallar um vettvangsrannsóknir yfirvalda hjá fyrirtækjum og einstaklingum en höfundar frumvarpsins hafa ákveðið, í stað þess að taka beinlínis upp í lagatextann hvað í þeirri heimild felst, að vísa til tveggja bókana við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða í bókanir 3 og 4 með samningnum eftirlitsstofnun og dómstóla EFTA um störf og valdsvið eftirlitsstofnana.

Ég tel að almennir borgarar sem lesa þetta ákvæði átti sig ekki á því að með því er þeim aðilum sem eftir ákvæðinu munu starfa veitt heimild til að gera rannsóknir og fara í vettvangsrannsóknir, t.d. á heimilum stjórnenda, framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna, að eftirlitsstofnun geti ákveðið að leita þar. Þetta eru verulega íþyngjandi ákvæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Ég skil bara ekki hvers vegna hv. efnahags- og viðskiptanefnd tók þetta ákvæði ekki til athugunar, sérstaklega vegna þess að ákvæðin fela í sér íþyngjandi reglu gagnvart þeim sem í hlut eiga.

Eins og ég sagði áðan er það alger grundvallarregla við lagasmíð, sérstaklega þegar um refsiheimildir er að ræða eða íþyngjandi ákvarðanir yfirvalda, að skýrt sé tekið fram í lagatextanum um hvað þær fjalla. Það er ekki síður mikilvægt til að það liggi fyrir hver valdmörk viðkomandi eftirlitsstofnunar eru í hverju tilviki, hversu langt má ganga og við hvaða aðstæður.

Ég tel að þessi tilvísunarregla í 22. gr. frumvarpsins, eins og það er nú, sé ófullnægjandi og uppfylli ekki almenn sjónarmið og skilyrði sem sett eru varðandi skýrleika heimilda eins og þessarar. Þess vegna mælist ég til þess við hæstv. viðskiptaráðherra að verði þessu ákvæði ekki breytt þá muni viðskiptaráðuneytið taka frumvarpið til endurskoðunar hvað þetta ákvæði varðar og útbúa heildstæðan lagatexta um þessar heimildir þannig að í textanum komi skýrt fram um hvað þær fjalla.

Ég sé að hæstv. viðskiptaráðherra er ekki í salnum en ég kom inn á þetta atriði við 1. umr. um frumvarpið og hygg að allir ættu að geta tekið undir það með mér þegar ég segi að hinum almenna borgara sem les lagasafnið er nánast ómögulegt nema hann lesi greinargerðina, sem fæstir gera enda eru þær ekki mjög aðgengilegar almenningi. Almenningur á mjög erfitt með að átta sig á efni og inntaki reglunnar sem fram kemur í 22. gr. Ég beini því til hæstv. viðskiptaráðherra að endurskoða þetta ákvæði laganna, verði því ekki breytt milli 2. og 3. umr.

Það kom reyndar líka fram við 1. umr. um þetta frumvarp að ég er svo sem ekki hlynntur þessari reglu, svo ríkum heimildum. Ég átta mig á því að þeim verður ekki beitt mjög reglulega og vonandi sem sjaldnast. Eins og fram hefur komið leiðir þessi regla af skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum og er ein af reglunum frá Brussel sem maður er ekkert sérstaklega hrifinn af, þótt í dag sé Evrópudagurinn eftir því sem mér skilst af Fréttablaðinu. En ég skora á hæstv. viðskiptaráðherra að taka þetta ákvæði til endurskoðunar þannig að almennir borgarar og þeir sem eiga að hlíta þeim lögum eða reglum sem fram koma í frumvarpinu, verði það að lögum, skilji hvað þar stendur.