131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[16:40]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að talsmaður neytenda njóti aðstoðar Neytendastofu en ekki nánar tiltekið hvernig. Það hefur komið fram ákveðin gagnrýni á þetta í umræðunni og til að bregðast við því var ákveðið að hann gerði þjónustusamning við Neytendastofu þannig að það lægi fyrir hvaða verkefni og hvers hann gæti krafist af Neytendastofu á grundvelli þess þjónustusamnings. Þetta tel ég vera mjög eðlilegt í kjölfar umræðunnar og þess sem kom fram í umsögnum og þar sé hv. efnahags- og viðskiptanefnd að bregðast við umræðunni og því sem bent var á í henni um að þessi samskipti væru óljós. Það er ljóst að talsmaður neytenda, sem er einn maður og hefur ekki mikið umleikis, þarf ákveðna aðstoð og með þessum þjónustusamningi er gert ráð fyrir að hann fái hana frá Neytendastofunni.

Síðan er það annað mál hvernig Neytendastofa á grundvelli þessa þjónustusamnings gerir kröfu eða beiðni um fjárveitingar til sín og ég reikna með að það eigi að rúmast innan fjárveitinga Neytendastofu.