131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[16:41]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Detta mér nú allar dauðar lýs úr höfði. Þjónustusamningar sem ég hef heyrt um eru gerðir þannig að sá sem stendur öðrum megin samningaborðsins leggur fram fé til þess að sá sem stendur hinum megin reiði fram þjónustu. En hér hefur meiri hlutinn komist að því mikla snillibragði að breyta þessu þannig að sá sem stendur öðrum megin borðsins, hér talsmaður neytenda, gerir samning við Neytendastofu um að hún veiti sér ákveðna þjónustu og borgi hana líka. Ég heyri ekki betur á hv. þm. Pétri Blöndal en að þetta sé svo.

Það sem ég vonaðist til að fá voru þau svör að talsmaður neytenda fengi þá sjálfstæða fjárveitingu til að gera þennan þjónustusamning við Neytendastofu en hann fær hana alls ekki, heldur er það Löggildingarstofan sem í raun og veru gerir þjónustusamninginn við sjálfa sig. Löggildingarstofa gerir þjónustusamning við sjálfa sig um hvernig hún eigi að hjálpa þessum aumingjans talsmanni neytenda og heldur þar með öllu forræði. — Nú eru þau farin að tala saman, forseti, ráðherrann hæstv. og formaður nefndarinnar, þannig að hér virðist hafa komið upp eitthvert vandamál sem þyrfti að leysa úr. — En talsmaður neytenda hefur sem sé ekki sjálfstæðan fjárhag og loksins þegar grillti í að hann fengi einhverja peninga til að gera sína samninga við Neytendastofuna barði hv. þm. Pétur Blöndal þann draug kirfilega niður. Það skal vera þannig að talsmaður neytenda er lítill bírókrat hjá þessari stórmerkilegu Löggildingarstofu sem á síðan að gera þjónustusamning við sjálfa sig um það hvernig hún ætlar að hjálpa honum.

Sér er nú hvert endemið. Heyr Örlygi, var sagt í gamla daga, en þetta verðskuldar kannski ekki svo miklar upphrópanir, þetta ómerkilega þingmál hæstv. ráðherra og þetta ómerkilega svar hv. formanns þeirrar nefndar sem ég man ekki lengur hvað heitir.