131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[17:57]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta það að embætti talsmanns er sjálfstætt og hann hefur sjálfstæðan fjárhag þannig að það sé alveg skýrt.

Hv. þingmaður spyr hvers vegna ekki sé tekið mark á eigin stofnun. Þá vil ég segja það sem ég hef sagt áður að við fáum að sjálfsögðu margar ábendingar og margar umsagnir um þetta mál eins og öll önnur mál. Ef það er svo og ef hv. þingmönnum finnst að viðkomandi stofnanir og ákveðnir sérfræðingar eigi að ráða ferðinni kæmi brátt að því að við þyrftum ekkert á Alþingi Íslendinga að halda. Þá ráða bara stofnanir og sérfræðingar. Sumir tala þannig í þessari umræðu að vegna þess að allir sérfræðingar, eins og flokksbróðir hv. þingmanns heldur fram, séu á móti þessu fyrirkomulagi eigi að fara aðrar leiðir og sama segir hv. þingmaður núna, að vegna þess að Samkeppnisstofnun og Neytendasamtökin hafi aðrar skoðanir eigi að fara að vilja þeirra. Ég er gersamlega ósammála hv. þingmanni. Að sjálfsögðu förum við yfir allar skoðanir og öll sjónarmið í þessum efnum en það er Alþingi sem ræður og við verðum að hafa það mjög ákveðið í huga.