131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[18:04]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla líka að leyfa mér að enda á bjartsýnisnótum og vonast til að þetta kerfi eigi eftir að ganga upp. Sjónarmið mín, um grundvöllinn að þessum skipulagsbreytingum, eru ekki ný af nálinni. Ég fjallaði um þau við 1. umr. um þetta mál. Gagnrýni mín hefur beinst að ýmsum öðrum efnisatriðum og einnig því að ég tel of marga enda vera óhnýtta í þessu máli og margt óljóst.

En ég ætla að ítreka að að sjálfsögðu vonast ég til að þær kerfisbreytingar sem ráðist er í verði á endanum til góðs. A.m.k. er það hlutverk okkar að reyna að sjá til þess að svo verði. Það er ekki öll nótt úti hvað þetta varðar. Þessi mál eiga að sjálfsögðu eftir að koma aftur til skoðunar, þessar kerfisbreytingar og reynslan af þeim. Þá legg ég áherslu á að efnt verði til samvinnu við þau samtök sem hafa óskað eftir henni, ég vísa til Neytendasamtakanna og samtaka launafólks sem beinlínis hafa óskað eftir samvinnu um þessi mál.