131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[18:11]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti, á þskj. 1349, frá efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, nr. 34/1998, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti sem getið er um í nefndarálitinu.

Tilgangur frumvarpsins er að heimila framangreindum fyrirtækjum að starfrækja verðbréfamarkað þar sem kröfur eru aðrar og vægari en í kauphöll og betur sniðnar að þörfum smærri fyrirtækja. Frekari rökstuðning er að sjá á nefndaráliti sem ég ætla ekki að lesa upp.

Meðal annars næst fram betra verðmat á óskráð hlutabréf en nú er, sem nýtist ýmsum aðilum, svo sem skattyfirvöldum, dómstólum og skiptastjórum. Nefndin telur að margt geti unnist með því að komið verði á fót slíkum markaðstorgum sem um er fjallað í frumvarpinu og að óþarft sé að setja um þau ítarlegri reglur en þar er gerð tillaga um. Réttara er að sjá fyrst hvernig þróunin verður og hvernig markaðsaðilum tekst til áður en ákveðið er hvort setja þurfi ítarlegri lagareglur um markaðstorg.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Háttvirtir þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara. Hv. þm. Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Una María Óskarsdóttir og Ögmundur Jónasson.