131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:04]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir þetta nefndarálit um frumvarp til laga um almannatryggingar, um tannlækningar, með fyrirvara. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fögnum vitaskuld þeim breytingum sem gerðar eru til þess að auka réttindi sjúkratryggðra, barna og ungmenna, aldraðra og ellilífeyrisþega og þeirri breytingu sem lögð er til, þ.e. að rýmka ákvæði um greiðsluþátttöku varðandi þá möguleika sem eru fyrir hendi núna þannig að þeir eldri sem missa tennur geti fengið sett tannplönt eða fengið endurgreiðslur varðandi aðrar aðgerðir en að láta rífa úr sér tennurnar og fá sér falskar tennur. Þessu ber að fagna og eru þessar breytingar á lögum um almannatryggingar að hluta til gerðar til þess að geta rýmkað til og komið fleiri aðgerðum að en verið hefur.

Fyrirvari minn er sá ég tel að með frumvarpinu sé verið að vísa til þess að eðlilegt sé að hafa ákvæði um endurgreiðslu úr sjúkrasjóði varðandi tannlækningar í reglugerð svo að meiri sveigjanleiki sé fyrir hæstv. ráðherra til að breyta reglunum með tilliti til nýrra úrræða og eins vegna stöðu sjúkratryggingasjóðs, þ.e. að þá sé hægt að fjölga aðgerðum eða draga saman eftir því sem fjárveitingar segja til um. Eins er um endurgreiðslu úr sjúkrasjóði hvað varðar aðra sérfræðiþjónustu því ákveðnir samningar gilda á milli sérfræðinga og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og því eðlilegt að til þeirra samninga sé vísað í reglugerð.

En nú vill svo til að tannlæknar eru einir af fáum heilbrigðisstarfsmönnum, sérfræðingum, sem samningar hafa ekki tekist við í nokkur ár og hefur ekki verið samningur í gildi frá 1999 að mig minnir. Nú er í gildi gjaldskrá sem ráðherra setur einhliða og sú gjaldskrá hefur ekki fylgt verðlagsþróun. Hún hefur ekki hækkað eins og var meðan samningar voru í gildi og það hefur dregið mjög í sundur á milli gjaldskrár ráðherra og gjaldskrár tannlækna. Ég tel að á meðan þetta ástand varir, sem vonandi linnir nú innan tíðar, sé eðlilegra að binda áfram í lagatexta endurgreiðsluhlutfall sem rétthafar til endurgreiðslu úr sjúkrasjóði eiga rétt á en að öll útfærsla á því hvað sjúklingar eigi rétt á, þ.e. hvers konar tannlækningar sjúklingar eigi rétt á, hvort þetta eru almennar tannlækningar, skorufyllingar, gull, krónur, tannpartar, tannplönt eða hvað það nú er, sé aftur á móti sett í reglugerð.

Hæstv. forseti. Fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Það er á þskj. 235 og er 229. mál. Við hv. þingmenn Ögmundur Jónasson lögðum það fram í vetur. Þar eru lagðar til breytingar á endurgreiðslu vegna tannlæknaþjónustu. Þar er endurgreiðsluhlutfallið bundið í lagatextanum en vísað til reglugerðar hvað varðar útfærslu og lagt til að þær reglur byggi á endurgreiðsluhlutfallinu sem kemur fram í lagatextanum. Ég tel miðað við þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir núna, að ekki sé í gildi samningur, að eðlilegt sé að hafa endurgreiðsluhlutfallið í lagatextanum en annað í reglugerð.

Ég vil einnig benda á að í breytingartillögu sem ég legg fram samkvæmt þessu á þskj. 1321 — það er 587. mál — er lagt til að endurgreiðsluhlutfallið verði nokkru hærra en kemur fram í frumvarpinu, í reglugerðardrögum sem frumvarpinu fylgja. Það er líka einsdæmi að bæði í breytingartillögunum sem hér koma fram og eins í reglugerðarákvæðunum er gengið út frá tekjutryggingu, gengið út frá tekjum einstaklinganna, aldraðra og öryrkja, hvað varðar endurgreiðsluhlutfallið.

Ákvæði í lögum um sérstök eyðublöð sem tannlæknar eiga að nota er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Reikningi fyrir tannlæknaþjónustu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.“

Ég tel að ef nokkuð sé reglugerðarákvæði þá sé það þessi klausa og legg til að hún falli brott og fari inn í reglugerð.

Hæstv. forseti. Ég vil líka benda á að með því að vísa til reglugerðarinnar og ef sú reglugerð sem fram kemur í frumvarpinu verður sett af hæstv. ráðherra þá kemur þar fram að fyrir tannpartana komi ákveðin föst greiðsla sem geti orðið allt að 80 þús. kr. á ári. En miðað við þá aðgerð sem hér um ræðir er ljóst að mikill munur er á þeirri kostnaðaráætlun sem heilbrigðisráðuneytið setur upp varðandi þessa viðgerð eða tannlækningar og raunkostnaði hjá tannlæknum. Munar þar helmingi eða meira. Þó að maður fagni þessum breytingum finnst mér annmarkar á reglugerðinni, m.a. hvað varðar þessa föstu greiðslu. Ég tel því að réttast væri að gjaldskrá ráðherra mundi liggja það nálægt raunverulegri gjaldskrá tannlækna að hægt væri að miða við ákveðið endurgreiðsluhlutfall en ekki svona fasta tölu.

Hæstv. forseti. Ég mun að svo komnu máli ekki hafa fleiri orð um þessa breytingartillögu sem ég legg fram. Ég styð þá rýmkun sem gerð er hvað varðar endurgreiðslu til aldraðra og öryrkja. Ég hvet hæstv. ráðherra og tannlæknastéttina til þess að einhenda sér í að koma á samningum milli þessara aðila svo að hægt sé að fara í þá breytingu sem lögð er til þannig að sjúklingar fái endurgreitt nokkurn veginn miðað við raunkostnað.