131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:14]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Þuríðar Backman sem stendur að því nefndaráliti, að vísu með fyrirvara, sem ég er nýbúin að mæla fyrir vildi ég bara fyrst og fremst árétta það að umfang greiðsluþátttöku almannatrygginga eða sjúkratrygginganna í tannlæknakostnaði ræðst fyrst og fremst af framlögum á fjárlögum til þessa málaflokks. Það er sá ytri rammi sem ráðherra hefur til að gera ráðstafanir innan málaflokksins. Það er sá rammi sem ræður því hvert umfang tannlæknaþjónustunnar er sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða. Ég vildi líka árétta það sem ég kom inn á þegar ég gerði grein fyrir nefndarálitinu, herra forseti, að þrátt fyrir ákvæðin, greiðsluhlutfallið, eins og 37. gr. almannatryggingalaganna gerir grein fyrir, hefur ráðherra hvað varðar þá sem eru langsjúkir á sjúkrahúsum, dvalar- og hjúkrunarheimilum, og eins varðandi unglingana, gengið lengra með sérstakri heimild í 36. gr. Hann hefur gengið lengra og með því tryggt að sá rammi sem honum er settur í fjárlögum er fullnýttur til að þjónusta þessa sjúklinga og greiða niður tannlæknakostnað þeirra.

Ég held því þess vegna fram, herra forseti, að réttur sjúklinga sé engu betur tryggður með því að hafa greiðsluhlutfallið í lögunum frekar en að hafa það í reglugerð eins og meiri hlutinn styður að verði gert í frumvarpinu sem við erum að ræða. Ég bendi líka á að á ráðherra hvílir líka sú skylda að halda útgjöldunum innan þessara áætlana til hvers af sviðunum fyrir sig og innan ramma fjárlaganna en á honum hvílir enn fremur sú skylda að nýta þetta fjármagn sem best. Og m.a. með þeirri breytingu sem við erum að leggja til hér er hann að tryggja það að hann nýti það til fulls.