131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 117 frá 1993. Eins og kom fram í nefndaráliti sem mælt var fyrir áðan er verið að leggja til breytingar á almannatryggingalögunum í þá veru að verið er að taka út úr lögunum réttindi til endurgreiðslu á tannlækningum og færa yfir í reglugerð, en reglugerðin hefur fylgt með málinu og eru í henni allnokkrar réttarbætur fyrir bæði elli- og örorkulífeyrisþega. Sömuleiðis er aukinn réttur barna frá því að miða við 16 ár og upp í 18 ár. Samkvæmt reglugerðinni sem fylgir með þingmálinu er verið að auka eða rýmka réttinn fyrir greiðslu á tannlæknavinnu sem ekki var greitt fyrir áður, þ.e. fyrir gullfyllingar, krónur og brýr hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.

Þetta er náttúrlega verið að gera til að reyna að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 en markmiðin eru þau að yfir helmingur fólks 65 ára og eldra hafi a.m.k. 20 tennur í biti. Það er náttúrlega ljóst að við gætum ekki náð því markmiði ef við ætlum að halda við þær reglur sem giltu og gilda þangað til þessu verður breytt þar sem eldra fólk er í rauninni nánast hvatt til þess að láta rífa úr sér tennurnar frekar en að láta gera við þær, miðað við greiðsluþátttöku almannatrygginga í tannlæknaviðgerðum.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu var ég ekki viðstödd þegar málið var afgreitt úr nefndinni en félagar mínir í Samfylkingunni skrifa undir málið með fyrirvara og hefði ég gert slíkt hið sama ef ég hefði setið fundinn, og vil ég gjarnan láta koma fram hver sá fyrirvari er. Sömuleiðis höfum við lagt fram breytingartillögu. En fyrirvarinn er sá að verið er að taka úr lögunum þennan rétt til endurgreiðslu og setja hann inn í reglugerð. Það tel ég vera mjög varhugavert og það hefur sýnt sig að þegar réttindi, sérstaklega í almannatryggingunum, eru í reglugerð er mjög gjarnan gripið til þess ráðs þegar harðnar á dalnum eða ríkisstjórnin telur sig þurfa að spara einhvers staðar að reglugerð sé breytt hjá almannatryggingunum. Þó að verið sé að bæta réttindin í reglugerðinni er rétturinn þarna ekki eins skýlaus og þegar hann er í lögunum því að þá þarf þetta alltaf að koma fyrir þingið og ræðast hér ef verið er að skerða eða auka réttinn, eftir því hvort er, þá þarf að ræða það hér. Það tel ég vera mikilvægt því að það á auðvitað að koma hér upp á borð.

Bæði Samtök aldraðra og Öryrkjabandalagið hafa bent á hvað mikið af réttindum þeirra er í reglugerðum og hvernig það hefur leikið þá. Ég ætla ekki að fara að lesa það allt upp en það kom fram í máli þeirra á nefndarfundi að búið væri að skerða í marga tugi skipta, 50 skipti, skrifaði ég eftir þeim, reglugerðir án samráðs og þar með er verið að skerða réttinn. Ég vil minna á nýlega reglugerð um endurhæfingu, reglugerð um greiðsluþátttöku vegna bifreiðakaupastyrkja og auðvitað má taka margt, margt fleira. Það væri til að æra óstöðugan að taka öll þau atriði þegar verið er að breyta reglugerðunum og það kemur auðvitað aldrei til umræðu í þinginu nema maður veki athygli á því í utandagskrárumræðu eða einhverju slíku.

Þess vegna teljum við að við eigum að halda í að þessi réttindi séu í lögunum og við leggjum fram breytingartillögu, sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Guðrúnu Ögmundsdóttur og Ágústi Ólafi Ágústssyni, þar sem við setjum réttindi til endurgreiðslu öll inn í lögin en nánari útfærsla er síðan í reglugerð.

Auk þess að taka þessi atriði sem snúa að elli- og örorkulífeyrisþegunum og eru í reglugerðinni töldum við óeðlilegt að andlega þroskahamlaðir einstaklingar 18 ára og eldri ættu að fá aðeins 90% endurgreiðslu, þannig að við bættum þeim inn í lögin með 100% endurgreiðslu. Ég vil minna á það, eins og komið hefur fram í umræðunni, að þó svo að þessar prósentur á endurgreiðslu séu 100% er það auðvitað ekki 100% þegar upp er staðið vegna þess að hér er verið að miða við prósentutölur af gjaldskrá ráðherra og hún er oftar en ekki mun lægri en sú gjaldskrá sem tannlæknar nota. Þó svo að fólk sé með 100% greiðsluþátttöku frá almannatryggingunum stendur það samt uppi með ákveðinn kostnað í lok aðgerðar.

Í einni umsögninni er einmitt bent á hvernig eldri borgari sem lenti í tannviðgerð og þurfti að greiða fyrir hana stóð uppi með mjög mikinn kostnað. Hann var kominn með rúmar 81 þús. kr. fyrir viðgerð á einni tönn. Við getum ímyndað okkur hversu erfitt það er fyrir ellilífeyrisþega sem er eingöngu með greiðslur frá almannatryggingunum. Þetta er því nokkuð snúið mál enda benda Samtök eldri borgara á að það geti verið ansi flókið fyrir marga að skilja hvernig þessu er háttað.

Landssamband eldri borgara segir einnig í umsögn sinni að það telji ekki líklegt að þessar nýju breytingar dugi til þess að ná þeim markmiðum sem Alþingi setti sér með samþykkt sinni 20. maí, en það verður auðvitað bara að koma í ljós. Það bendir einnig á að alltaf er nokkur fjöldi fólks sem ekki hefur tök á því að veita sér þessa þjónustu vegna kostnaðar. Þetta á ekki eingöngu við um eldri borgara, þetta á við um mjög marga aðra, t.d. þá sem eru atvinnulausir og fólk sem er illa statt fjárhagslega. Ég er nýbúin að fá inn á borð til mín mjög slæmt dæmi um slíkt, að fólk sem er með mjög lágar tekjur eða atvinnulaust getur ekki leyft sér að láta gera við tennurnar í sér. Það getur auðvitað orðið dálítið dýrt þegar upp er staðið fyrir samfélagið ef þetta fer að gerast. Einnig er bent á að tannviðgerðir barna þessa fólks, sem þurfa auðvitað tannviðgerðir líka, getur verið allverulegur baggi á heimilum.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna, við gætum vissulega talað um þetta fram eftir nóttu því að það eru ýmis mál sem mætti ræða í tengslum við þessa breytingu. En eins og ég sagði við 1. umr. málsins fagna ég því að ráðherra skuli breyta þessum reglum þannig að fólk geti látið gera við tennurnar í sér og þurfi ekki að láta rífa úr sér allar tennurnar ef þær eru orðnar illa farnar. Það er auðvitað verið að færa þessar reglur að nútímalegri háttum.

Við gagnrýnum það að þessi réttur skuli vera tekinn út úr lögunum og settur inn í reglugerðina og breytingartillaga okkar, sem ég ætla nú ekki að fara að lesa hér orð fyrir orð, liggur fyrir á þskj. 1320. Þar er gert ráð fyrir að þessi endurgreiðsluréttur sé áfram í lögunum og einnig að andlega þroskahamlaðir einstaklingar 18 ára og eldri fái 100% endurgreiðslu en ekki 90% eins og reglugerð ráðherra gerir ráð fyrir. Það er sú breyting sem við gerum en að öðru leyti útfæri ráðherrann málið nánar í reglugerð eins og hann hefur gert með ýmsar aðrar greiðslur. Þó svo að reglurnar eins og þær eru í dag séu í lögunum var nánari útfærsla hjá ráðherranum í reglugerð. Við viljum halda þessum atriðum í lögunum.