131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Ég var ekki, herra forseti, að tala um hvort ráðherra hefði gert betur eða verr. Ég benti á að það er auðveldara að breyta reglum í reglugerð en að þurfa að fara með það í gegnum þingið og taka þá umræðu hér. Þess vegna vilja ráðherrar frekar hafa slíkt í reglugerð, vegna þess að það er þægilegra fyrir þá, ef þeir þurfa að draga saman, að breyta því án þess að það komi athugasemdir við það.

Ég minni á að nýverið, af því hv. þingmaður hefur gert mikið úr því að það sé verið að gera betur við fólk, var reglum um þjálfun fyrir hreyfihamlaða breytt. Þar var aldeilis ekki gert betur við þá. Þar var rétturinn minnkaður og auknar álögur á öryrkja og fatlaða sem þurfa að vera í stöðugri þjálfun. Þetta ætti hv. þingmaður að kynna sér. Þar var rétturinn skertur og álögurnar auknar með reglugerðarbreytingu. Við viljum koma í veg fyrir að svo verði gert með tannlækningarnar, að með því að hafa þær áfram inni í lögunum sé a.m.k. hægt að fara í gegnum umræðurnar á þinginu ef menn hafa slík áform.