131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Lyfjalög og heilbrigðisþjónusta.

649. mál
[20:52]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um heilbrigðisþjónustu. Eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar, sem mælti fyrir álitinu, er ég ein þeirra sem undirrita nefndarálitið með fyrirvara. Sá fyrirvari á fyrst og fremst við um blóðbanka. Það kemur skýrt fram í nefndarálitinu hvernig þeim málum er fyrir komið í þessum lögum með öðrum tilskipunum og það finnst mér á engan hátt ganga. Það er mjög gott, sem fram kemur í nefndarálitinu, að nefndin var sammála um að það væri eitt af því sem ráðuneytið þyrfti að fara nánar ofan í.

Eins og segir þar, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallaði um þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um heilbrigðisþjónustu og varða blóðbankastarfsemi. Telur nefndin æskilegt í ljósi sérstöðu blóðbankastarfsemi að skoðað verði hvort um þá starfsemi skuli fjallað í sérstökum lögum og jafnframt rök og ástæður fyrir rekstrarlega og/eða fjárhagslega sjálfstæðri starfsemi blóðbanka, m.a. með hliðsjón af ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.“

Þegar við fengum þessa EES-samþykkt í hendur eða tilskipunina þá kom í ljós að hún er 34 greinar og margar blaðsíður. Svo ég tæpi á nokkrum þáttum hennar þá er þar t.d. talað um blóðbanka sjúkrahúsa, rýni- og gæðaeftirlit með blóði, gæðastjórnun og innra gæðaeftirlit með blóði, ábyrgð blóðbankanna, skilgreiningar, skráningar, persónuvernd, rekjanleika blóðs, skimun, sjálfboðaliða, hverjir megi gefa blóð og hverjir ekki, prófanir, hvað megi prófa, vernd gegn aðgangi að tölfræðilegum upplýsingum og hverjir, hvar og hvernig eigi að hafa þann aðgang.

Hér er í raun um mjög ítarlegan lagabálk og afar mikilvægan að ræða. Ég vil því endilega hvetja til þess, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að því verði sérstaklega beint til heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytis að í þetta mál verði gengið og lögum um blóðbanka verði komið fyrir í sérlögum, þótt auðvitað gildi sem stendur lög um persónuvernd og persónuupplýsingar gagnvart réttindum sjúklinganna þannig að við tryggjum þetta að vissu marki í bili. En eins og tilskipunin er getur engan veginn talist nægjanlegt að það sé gert með einni grein í þessu frumvarpi. Það stenst ekki og er í raun andstætt því gegnsæi sem um er talað.

Ég vona að við eigum eftir að sjá sérstök lög um blóðbanka. Ég veit af vinnunni í ráðuneytinu, að unnið hefur verið að þessari tilskipun að mestu leyti eins og um reglugerð væri að ræða. En ég tel að til að hafa alla hluti uppi á borði þá væri eðlilegt að um þetta giltu sérlög.

En þetta mál er að mörgu leyti gott og fyrirvari minn er fyrst og fremst sá að við hefðum viljað fá ítarleg lög um blóðbanka. Við hefðum þar af leiðandi átt að fella niður 10. gr. frumvarpsins og láta vinna sérlög út frá áðurnefndri tilskipun.