131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Lyfjalög og heilbrigðisþjónusta.

649. mál
[21:00]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti frá hv. heilbrigðis- og trygginganefnd var ég fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ég var við alla vinnslu málsins í nefndinni en hafði ekki tök á að vera viðstödd þann fund þegar málið var tekið út. Ég hefði sett sama fyrirvara og félagar mínir í Samfylkingunni og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir gerði grein fyrir áðan hefði ég skrifað undir málið. Ég legg áherslu á hve mikilvægt sé að sett verði sérstök lög um blóðbankann. Það kom okkur á óvart þegar í ljós kom að ekki voru til nein sérstök lög um blóðbanka. Þarna eru náttúrlega mjög miklar viðkvæmar upplýsingar á ferðinni og mikil starfsemi sem auðvitað þarf að ríkja ákveðin lagasetning um þó svo að hún heyri núna undir ýmis lög eins og persónuvernd og fleiri þætti.

Ég vil gera grein fyrir því hér að ég er sammála þessari lagasetningu. Þarna er náttúrlega verið að setja í lög ákveðnar tilskipanir frá Evrópu og síðan er verið að taka þarna á fleiri þáttum eins og fram hefur komið hér og kemur fram hér í nefndarálitinu sem ég ætla ekki að orðlengja frekar um. En ég vildi gera grein fyrir afstöðu minni hér vegna þess að ég var ekki viðstödd þegar málið var tekið út úr nefndinni.