131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:13]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008.

Svo sem kunnugt er er samgönguáætlun mikið þingskjal sem ég þykist vita að þingmenn allir hafi lesið í þaula. Háttvirt samgöngunefnd vann þetta með mjög hefðbundnum hætti. Við fengum hina reglulegu gesti til okkar, einkum frá þeim stofnunum ríkisins sem snerta samgöngur, þ.e. Flugmálastjórn, Siglingastofnun og fulltrúa Vegagerðarinnar, og fórum yfir meginlínur í samgönguáætlun, bæði tekju- og útgjaldahlið. Þar að auki hélt vegamálastjóri ásamt embættismönnum sínum fund með þingmönnum einstakra kjördæma að vanda þar sem áætlunin var skoðuð með þingmönnum kjördæmanna og niðurstöður þeirra funda flutti síðan vegamálastjóri til hv. samgöngunefndar.

Skemmst er frá því að segja, virðulegur forseti, að meiri hluti samgöngunefndar gerir tillögur um óverulegar breytingar á hinu upphaflega þingskjali og eru þær í smærri atriðum, má segja. Lúta þær ekki síst að nafnabreytingum á einstökum vegum. Ég tel ekki ástæðu til þess að lesa þær hér upp en vísa í þskj. 1367 þar að lútandi.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með því að þingsályktunartillagan verði samþykkt að meginhluta, en þó með þeim breytingum sem ég gat hér um og eru nefndar á þskj. 1367.

Undir þetta rita auk þess sem hér stendur hv. alþingismenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Einar K. Guðfinnsson og Magnús Stefánsson.