131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:16]

Frsm. minni hluta samgn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Minni hluti samgöngunefndar harmar að í þeirri þingsályktunartillögu sem hér um ræðir, um samgönguáætlun til næstu fjögurra ára, er lagður til verulegur niðurskurður frá gildandi samgönguáætlun. Heildarniðurskurður á árunum 2005 og 2006 er 5,4 milljarðar kr. að teknu tilliti til vísitölu Vegagerðarinnar. Þessi mikli niðurskurður er umbylting frá digrum kosningavíxlum sem var veifað rétt fyrir kosningarnar 2003 og frægt varð að endemum þegar allt var skorið niður eftir kosningar. Þá átti að gera allt fyrir alla, nú er skorið niður. Niðurskurðurinn mun koma illa niður á ýmsum svæðum. Þremur mánuðum fyrir síðustu þingkosningar kynntu oddvitar stjórnarflokkanna að ríkisstjórnin hefði samþykkt að verja 6 milljörðum kr. næsta eina og hálfa árið til aukinna samgönguframkvæmda og voru ýmis verk talin upp í því samhengi. Nú er komið í ljós að margt af þessu hefur verið slegið af eða frestað inn í framtíðina.

Heildarniðurskurðurinn er að mati okkar í minni hluta samgöngunefndar fjandsamleg aðgerð fyrir byggðina í landinu og er höfuðborgarsvæðið þar alls ekki undanskilið. Sundabraut sem greinilega á að leggja til hliðar er þar að sjálfsögðu langstærsta og alvarlegasta málið. Hæstv. samgönguráðherra lætur ýmsum spurningum ósvarað í þessari áætlun varðandi Sundabrautina, t.d. hvenær eigi að hefja hönnun mannvirkisins, hvenær framkvæmdir eiga að hefjast, hvenær verklok eru áætluð og hvernig á að fjármagna framkvæmdina. Allt er þetta á reiki og ef ekki fást svör um tímasetningar og áætlanir er ráðherra einfaldlega að snúa baki við Sundabrautinni sem er án efa ein af mest áríðandi vegaframkvæmdum landsins og þá fyrir landsmenn alla

Niðurskurðurinn kemur þó einnig harkalega fram gagnvart öðrum landshlutum en höfuðborgarsvæðinu og er hann í raun óásættanlegur með öllu. Allt tal um byggðastefnu er orðin tóm þegar skera á svo mikið niður í samgöngumálum sem eru langmikilvægasta einstaka málið þegar kemur að hvers konar byggðastefnu. Mikilvægum framkvæmdum er frestað en hvert ár er dýrmætt í mörgum byggðanna þar sem fólk sér ekki fram úr erfiðu ástandi þar sem greiðar samgöngur eru algjört lykilatriði hvort sem litið er til Vestfjarða, Austfjarða eða Vestmannaeyja. Samgöngur eru lykilatriði til að viðhalda og efla byggðina í landinu og því hlýtur að vera spurt, þegar þessi tillaga til samgönguáætlunar er rædd, hvort skynsamlegt sé að skera niður ríkisframlög í þessum málaflokki á meðan ástandið er eins og raun ber vitni. Nei, að sjálfsögðu ekki og það er fráleitt og þarfnast ítarlegra skýringa af hálfu ráðherra þegar kosningavíxlarnir eru fallnir og eftir stendur niðurskurður framlaga á árunum 2005 og 2006.

Dæmi um samdrátt ríkisins á framlögum til vegamála á síðustu árum og áratugum er að árið 1970 voru útgjöld til vegakerfisins sem beint hlutfall af landsframleiðslu 1,35%. Árið 2003 voru útgjöld til vegakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu 1,59%. Árið 2005 eru útgjöld til vegakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu komin niður í 0,92%, sem þýðir 60–70% niðurskurð á framlögum til vegamála sem hlutfall af landsframleiðslu á árunum 2003–2005. Um er að ræða verulegan samdrátt í útgjöldum til vegamála litið til síðustu ára þótt aðeins séu talin þessi tvö ár.

Þetta eru alvarlegar staðreyndir. Að mati minni hlutans á almennt að auka framlög til vegamála og leggja sérstaka áherslu á öflugar tengingar við höfuðborgarsvæðið eins og Sundabraut. Framlög til samgöngumála kalla ekki á veruleg rekstrarframlög í framtíðinni og má fullyrða að í þeim felst sparnaður þegar allt er reiknað. Má þar telja fækkun slysa og ódýrari rekstur bifreiða, minni eldsneytisnotkun með styttri vegalengdum og verulegan tímasparnað vegfarenda sem að sjálfsögðu er mikils virði, sérstaklega þegar litið er til brýnustu framkvæmdanna innan höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna er það óskiljanlegt að nú séu útgjöld til vegamála og samgöngumála skorin niður um 5,4 milljarða kr. Það er af sem áður var þegar glitti í kosningarnar handan við hornið.

Minni hlutinn telur að sú lækkun sem lögð er til í tillögunni geti haft miklar afleiðingar á ýmsum svæðum á landinu sem ríkisstjórnin hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á.

Að sjálfsögðu er margt jákvætt að finna í þeirri áætlun sem hér um ræðir en þessi heildarniðurskurður gerir hana hins vegar óásættanlega og þannig úr garði að ekki er hægt að styðja áætlunina af því að sá niðurskurður hefur ekki verið rökstuddur með neinum viðunandi hætti. Mörg einstök verkefni er að sjálfsögðu hægt að tína til héðan og þaðan af landinu, framkvæmdir sem búið var að að lofa sérstaklega og má þar nefna Suðurstrandarveg sem var lofað sem sérstakri samgöngubót vegna kjördæmabreytinganna sem áttu sér stað á sínum tíma. Það var sett fram sem sérstök samgönguáætlun, sérstök vegaframkvæmd til að tengja hið nýja kjördæmi saman og átti ekki að hafa áhrif á aðrar framkvæmdir í kjördæminu. Mönnum var ekki stillt upp með það að forgangsraða þeirri framkvæmd fram yfir aðrar af því að stjórnarflokkarnir lofuðu henni sem sérstakri framkvæmd út af kjördæmabreytingunum og fór engin pólitísk umræða fram um að slá öðrum mikilsverðum framkvæmdum innan þess kjördæmis á frest vegna þess.

Í tillögunni er varla minnst á Suðurstrandarveg nema rétt gert ráð fyrir útboði á litlum hluta vegarins. Auk þess átti samkvæmt kosningaloforðum hjá oddvitum stjórnarflokkanna að setja 200 milljónir í lagfæringu á vegi um Hellisheiði og 200 milljónir í Gjábakkaleið og í stóryrtum yfirlýsingum oddvita Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins var mikil áhersla lögð á að flýta þessum framkvæmdum sem mest verða mátti. Samkvæmt útskriftum af fréttum frá þessum tíma fullyrti þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, til að mynda að að sjálfsögðu sæi fyrir endann á lagningu á Suðurstrandarvegi innan örfárra missira. Allt eru þetta orðin tóm í dag og búið er að svíkja menn um Suðurstrandarveg eins og margar aðrar framkvæmdir í kosningavíxlunum frægu.

Í tillögunni er að sjálfsögðu, eins og ég nefndi áðan, að finna margt jákvætt og þar má nefna að Hellisheiðin og breikkun hennar er komin inn á áætlun. Þar er mikilvægt að gengið sé hratt til verks og sjái fyrir endann á þeim framkvæmdum sem allra fyrst, enda vegurinn mjög fjölfarinn og hættulegur á köflum. Umferðin hefur aukist þar gífurlega mikið á örfáum árum og það þekkja þeir tugir þúsunda íbúa suðvesturhornsins sem eiga heilsárshús og sumarhús einhvers staðar í fjórðungnum og aka þessa leið oft í mánuði árið um kring. Allir þekkja hve umferðarálagið er orðið mikið á veginum og hve hann er orðinn stórhættulegur á köflum. Umferðin hefur til að mynda aukist um 12% einungis á milli áranna 2002 og 2003 á milli Selfoss og Hveragerðis og um heil 70% hefur umferðin aukist yfir Hellisheiðina á síðasta áratug eða svo. Þessari gífurlegu umferðaraukningu verður að svara eins og ráð er fyrir gert hér og ber að fagna því, enda er um að ræða mikið öryggismál og mikið byggðamál. Vegurinn er seinfarinn og hættulegur á köflum þegar álagið er hvað mest og mikilvægt að hrinda breikkun vegarins í framkvæmd sem allra fyrst. Þetta eru nokkur þeirra verkefna sem ber að nefna sérstaklega úr því kjördæmi og mætti tína margt annað til.

Minni hluti samgöngunefndar vísar því ábyrgðinni á þeim harkalega niðurskurði og því hve lítið er lagt til vegamála miðað við útgjöld fyrri ára sem hlutfall af landsframleiðslu alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna. Við sjáum engin efnahagsleg rök fyrir því að skera svo grimmt og harkalega niður í framlögum til samgöngumála og alls ekki þegar tekið er tillit til þeirra loforða sem búið var að gefa landsmönnum og kjósendum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og því hve fast var stigið til jarðar í þeim loforðum, hve mikið var sagt, hve miklu var lofað. Enginn rökstuðningur hefur komið fram sem réttlætir þau svik við íslenska kjósendur af því að það er ekkert sem blasir við þeim sem því trúðu og því sem fólkinu var sagt.

Af hverju er verið að skera þetta niður núna? Það er engin efnahagsleg vá sem vofir yfir sem mælir því bót að hér sé skorið niður. Þvert á móti, eins og ég nefndi áðan, má frekar fullyrða að veruleg rekstrarframlög til vegamála hafi sparnað í för með sér þegar allt er tekið saman, mikinn sparnað fyrir þjóðarbúið í heild þegar kemur að greiðari götum, greiðari umferð, betri vegum, betri nýtingu á farartækjum, færri slysum og öllu því sem tína má til, enda hefur það gífurlegan kostnað í för með sér þegar alvarleg slys eða minni háttar eiga sér stað, að ekki sé talað um mikilvægi þessara samgönguúrbóta þegar litið er til byggðanna í landinu. Þetta er algjör forsenda fyrir því að byggðir nái að eflast og dafna eða taka við sér þar sem verið hefur mikill samdráttur, mikil fólksfækkun. Í mörgum byggðakjörnum víða um land er algjör meginforsenda að samgöngur séu bættar, að fólkið sjái fram á að bæta eigi samgöngurnar og fólkið upplifi það að standa eigi við stóru orðin sem sett eru fram korteri fyrir kosningar og svikin um leið og búið er að telja upp úr kjörkössunum.