131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:00]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á hv. þingmann flytja breytingartillögu sína og skoðað hana vel frá því að hún var lögð fram. Í mínum huga er tillagan stórgölluð. Það stemmir ekki sem hér er sett upp. Ég vildi spyrja hv. þingmann út í það að hér gerir hann ráð fyrir að skera niður liðinn Jarðgangaáætlun um 1.000 millj. kr. eða úr 1.200 millj. kr. í 200 millj. kr. Þessar 1.200 millj. kr. sem eru inni fyrir árið 2005 rétt duga til að borga þær framkvæmdir sem nú standa yfir í Fáskrúðsfjarðargöngum.

Ég geri ráð fyrir því, virðulegi forseti, að hv. þingmaður sé sammála mér um að verktakar eigi að fá greitt fyrir vinnu sína á þeim tíma sem verkið er unnið. Þær 200 millj. kr. sem hv. þingmaður skilur eftir fyrir árið 2005 duga ekki til að gera upp við við verktakann. Hvernig á Vegagerðin að standa við þær skuldbindingar, að borga þær 1.200 millj. kr. sem eru í áætlun meiri hlutans, hæstv. ríkisstjórnar? Hvernig á að borga verktakanum Ístaki, í þessu tilviki, fyrir unnið verk?