131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:09]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg óþarft hjá hv. þingmanni að vera svona viðkvæmur þótt Siglfirðingar geti farið í bíó til Akureyrar í gegnum Héðinsfjarðargöng.

En að reikna út arðsemi ganga um Héðinsfjörð er mjög langsótt. Menn geta náttúrlega keypt sér skýrslu til að gera alla hluti en það er gjörsamlega útilokað að þetta sé allt í einu orðin ein arðbærasta framkvæmd á landinu, samkvæmt ýmsum fullyrðingum. Ég heyrði einn ágætan mann segja í útvarpi ekki alls fyrir löngu að Siglufjörður væri ein aðalútflutningshöfn fyrir Norðurland eystra.

Ég hef ekki verið með neinar upphrópanir. Ég hef bara dregið það fram, hv. þingmaður, að mér finnst þessi jarðgangagerð og þessi tillaga afar hæpin. Við erum að tala um að þetta kostar a.m.k. 7 milljarða kr. og svo hafa menn fullyrt að tvöfalda þurfi Ólafsfjarðargöng, sem kosti 2–3 milljarða kr., að minnsta kosti. Geta menn varið þessa fjárfestingu?