131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:10]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka enn að trúlega eru fáir þingmenn jafn vel að sér um vegamál almennt hér á landi og hv. þm. Gunnar I. Birgisson. En ég fullyrði að hann þekkir ekki mjög vel til staðhátta við utanverðan Tröllaskaga. Ég minnist þess að hann hafi m.a. rætt um það í útvarpsviðtali m.a. að vegur um Nesskriður væri mjög hættulegur. Nesskriður eru í Siglufirði og þar er enginn vegur. Þar gengur búfénaður um og menn elta þar skjátur upp um hlíðar en þar hefur aldrei staðið til að gera nokkurn veg.

Mér finnst það einfaldlega ekki trúverðugt þegar hv. þingmaður hefur í tvígang samþykkt þessa framkvæmd. Hann hefði, ásamt fleiri þingmönnum sem hafa andæft þessari framkvæmd, betur komið fram sumarið 2003 þegar ákveðið var að fresta henni. Þá hefði hann átt að halda þessum málflutningi til haga. Þá hefði fólk fengið raunveruleg úrslit um það hvort af þessari framkvæmd yrði eða ekki, sem ég vona svo sannarlega að verði af og meiri hluti fyrir á Alþingi.