131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:18]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef að vissu leyti skilning á þessum áherslum sem fram koma í breytingartillögum hv. þm. Gunnars Birgissonar og þá einkanlega hvað það varðar að auka fé til höfuðborgarsvæðisins. Það var löngu kominn tími til eftir langt hungurskeið af völdum þessarar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður hefur, nota bene, stutt með ráðum og dáð öll þessi ár.

Á hinn bóginn hefði ég talið skynsamlegra að hann hefði gengið í lið með okkur stjórnarandstæðingum sem höfum með réttu gagnrýnt að það vanti fé til vegamála í heild og breidd, og hann hefði lagst á þá sveifina að auka fé til höfuðborgarsvæðisins en látið landsbyggðina í friði.

Ég vil hins vegar spyrja hann að einu: Hvernig stendur á því að hann er hér einn á ferð í hópi stjórnarliða? Er hann að dæma samþingmenn sína í Suðvesturkjördæmi, ráðherra á borð við Árna Mathiesen og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur? Hvað með formann samgöngunefndar, Guðmund Hallvarðsson? Er þetta allt ónýtt fólk þegar kemur að því að laga hér samgöngur á höfuðborgarsvæðinu? Hvaða skilaboð er hann að senda þessu fólki? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þingheimur átti sig á innanmeinum þessarar ríkisstjórnar þannig að við getum talað um þessi mál af einhverri þekkingu.