131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:19]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður hver að tala fyrir sig í þessum málum. Það er óvanalegt að þingmaður úr meiri hluta taki sig svona út úr, komi með eigin tillögur og gagnrýni þetta en ég ákvað að gera það. Mér þótti þessi skipting vera afar ósanngjörn. Ef maður lítur samt á þróunina frá því áður hefur náttúrlega þróunin á fjármunum til höfuðborgarsvæðisins farið vaxandi sem betur fer — en ekki nóg, að mínu mati.

Það hefur orðið gjörbylting frá þeim tímum þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var samgönguráðherra og síðan kom Halldór Blöndal og síðan kemur hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson. Þeir hafa báðir aukið fjármuni inn til höfuðborgarsvæðisins. En á sama tíma hefur íbúum fjölgað gífurlega og bílum enn meira. Umferðarálag hefur orðið langtum meira þannig að þessir fjármunir sem núna eru duga hvergi nærri til. Það þarf að gefa upp á nýtt í málinu.