131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:24]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram í ræðum mínum að sá galli er á gjöf Njarðar við þá tillögu sem hér er um að ræða að þær 1.000 millj. kr. sem skornar eru niður þetta ár til jarðgangaframkvæmda eru teknar algerlega frá þeirri framkvæmd sem stendur yfir fyrir austan, við Fáskrúðsfjarðargöng. Þær 1.200 millj. kr. sem eru inni í tillögum meiri hlutans fara allar til þess að borga Fáskrúðsfjarðargöng.

Eftir stendur því niðurskurður í framkvæmdum á þessu ári, upp á 650 millj. kr. Ég spyr aftur, virðulegi forseti, hv. þingmann: Styður hann að lækka framkvæmdir í vegamálum á Íslandi um 650 millj. kr. á þessu ári?

Í annan stað, virðulegi forseti, vil ég leyfa mér að spyrja hv. þingmann: Styður hann tillögur í breytingartillögu hv. þm. Gunnars Birgissonar um niðurskurð á framkvæmdum á fjórum árum upp á tæpar 200 millj. kr. í veginn Svínadalur–Flókalundur í Norðvesturkjördæmi eða Þverárfjallsveg, Skagavegur–Sauðárkrókur, um rúmar 100 millj. kr., sem líka er í Norðvesturkjördæmi, eða framkvæmdir við Ísafjörð og Mjóafjörð um 51 millj. kr. og aðrar smotterísframkvæmdir upp á tæpar 150 millj. kr.?

Styður hv. þsm. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis, niðurskurðinn á þessum verkefnum svo og niðurskurð á framlögum til að byggja upp Þingeyrarflugvöll?