131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:26]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið upplýsandi að hlusta á ræður hv. þingmanna Gunnars Birgissonar og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um vegamál. Satt að segja hélt ég, miðað við yfirlýsingar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að þeir fylgdust að í þessu máli en svo virðist ekki vera þegar líða tekur á umræðuna.

Hæstv. forseti. Ég las viðtal við hv. þingmann í Fréttablaðinu í dag og gekk því dálítið bjartsýnn til þessarar umræðu í kvöld. Í dálki í Fréttablaðinu sem heitir „Spurt og svarað“ er fyrirsögnin „Heldur ríkisstjórninni við efnið“. Þar spyr blaðamaður: Ertu aftur orðinn ósáttur við ríkisstjórnina?

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa svar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar:

„Ég segi það nú ekki. Ég var ekki að fara fram á neitt nýtt heldur aðeins að krefjast þess af ríkisstjórninni að hún héldi sig við það sem áður hefur verið samið um. Í jarðgangaskýrslunni er gert ráð fyrir þremur göngum; fyrst milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, þau göng eru að verða búin. Síðan á að bjóða út Héðinsfjarðargöng á þessu ári en ekkert bólar á ákvörðun um þriðju göngin sem eru göngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.“

Síðan kemur hv. þingmaður upp og heldur mikla ræðu sem aðallega snýst um þau göng sem hann nefndi í Fréttablaðinu fyrr í dag, talar um að það sé óafgreitt mál, ekkert búið að ræða það mál og hann muni ekki greiða því atkvæði að fara í þá framkvæmd. Þá hljótum við aðrir hv. þingmenn að gefa okkur, fyrst að Héðinsfjarðargöngin eru óafgreitt mál að mati hv. þingmanns, að þá sé væntanlega ekkert gefið um jarðgöng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, miðað við málflutning hans hér í kvöld. Við hljótum að gefa okkur það.