131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:30]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er enn þá engu nær um þetta viðtal við hv. þingmann í dag þar sem hann svarar því í Fréttablaðinu að það sé ákveðið að farið verði í Héðinsfjarðargöngin. Því miður snýr hann svo kúrsinum við hér í kvöld og talar gegn þeirri framkvæmd sem kemur mér verulega á óvart. Hann talar jafnframt gegn því sem hann samþykkti í jarðgangaáætlun 2000–2004 þar sem hann greiddi atkvæði með þeirri áætlun. Er þá ekki eðlilegt að forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem telja sig hafa bakland í þessu máli, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, ákveði að fara í þessa framkvæmd þegar þeir telja sig hafa bakstuðning félaganna í þingflokknum í málinu, sem hafa lofað málinu í þingsölum með atkvæði sínu?

Því miður er það þannig, hæstv. forseti, að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson berst fyrir mjög mörgum ágætum verkefnum á Vestfjörðum, en hann berst á hæl og hnakka og er manna öflugastur í þinginu að berjast gegn öðrum hliðstæðum framkvæmdum á landsbyggðinni. Slíkt er ekki til fyrirmyndar, sérstaklega þegar hv. þingmaður hefur ljáð þeirri framkvæmd atkvæði sitt, þegar búið er að lofa kjósendum þessari framkvæmd. Hv. þingmaður stóð að því með atkvæði sínu.

Svo talar hv. þingmaður um að ríkisstjórnin sé að ganga á bak orða sinna. Hann hvetur til þess að menn gangi á bak orða sinna í þessu máli. Mér þykir það miður. Hér er um að ræða samkomulag sem hefur náðst milli sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð og ríkisstjórnarinnar. Þetta snertir fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem gamall sveitarstjórnarmaður ætti að vita að slíkt samkomulag á að halda, því að annars eru samskipti ríkis og sveitarfélaganna í landinu í algjöru uppnámi.