131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:32]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni í því að hér sé um að ræða jafngilda kosti, Héðinsfjarðargöng annars vegar og Dýrafjarðargöng hins vegar. Það væri frekar hægt að segja að jafngildir kostir í þessu væru Dýrafjarðargöng á móti Fljótagöngum eða uppbyggingu vegar um Lágheiði. Það væru að mínu mati jafngildir kostir.

Ég vil segja við hv. þingmann að við gengum til kosninga í maímánuði 2003 með nýsamþykkta samgönguáætlun að vopni. Nú liggur fyrir, virðulegi forseti, að vanta mun 7,4 milljarða upp á það fjármagn til vegamála sem samgönguáætlunin gerði ráð fyrir og því sem menn eru að leggja til hér í þingsölum, m.a. með stuðningi hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar.

Eru þau loforð ekki jafngild öðrum? Er í lagi að víkja frá þeim þegar á hólminn kemur og draga úr framkvæmdum til vegamála svo mikið sem raun ber vitni? Ég held að menn verði að gæta sín svolítið í yfirlýsingum í þessum málum jafnvel þó að málið brenni heitt á mönnum og tilfinningar ráði nokkru um málflutning, sem ég legg mönnum ekki til lasts því að tilfinningar eru gildur þáttur í stjórnmálum sem eðlilegt er að hafa til hliðsjónar. En menn verða líka að hafa skynsemina að leiðarljósi og vega og meta allar aðstæður og forsendur máls. Það held ég að menn ættu að geta sameinast um.