131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:56]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þessa umræðu háðum við þegar samgönguáætlunin kom fyrst fram, nokkuð ítarlega efnislega. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að fara í gegnum þá umræðu nema að litlu leyti hér við 2. umr. um málið. Þær breytingartillögur sem komið hafa fram frá meiri hluta samgöngunefndar eru ekki miklar um sig eða breyta ekki málinu í neinum meginatriðum. Það er ljóst að stjórnarmeirihlutinn ætlar að afgreiða þessa samgönguáætlun, jafnvond og hún er, meira og minna eins og hún kom inn í þingið. Það eina sem sætir tíðindum er tillöguflutningur hv. þm. Gunnars I. Birgissonar við þessa umfjöllun sem sannarlega sprettur ekki upp af engu.

Svo langt hefur ríkisstjórnin gengið í því að þrengja að höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum að jafnvel hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Gunnar I. Birgisson, kiknar undan því oki að þurfa að svara kjósendum sínum og verja þá áætlun sem hér er lögð fram. Enda er það þannig að hæstv. samgönguráðherra, og nú formaður samgöngunefndar Alþingis, skila algjörlega auðu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Í mínu kjördæmi, Reykjavík, er helstu framkvæmdanna sem mestu varða þetta svæði að litlu eða engu getið. Þar er til að mynda Mýrargatan, gatnaframkvæmd hér í miðborg Reykjavíkur, sem fyrir liggur skipulag um og kostar um 1.200 millj. kr. Til hennar er aðeins gert ráð fyrir 100 millj. kr. fjárveitingu.

Þar er auðvitað Sundabrautin sem við höfum rætt ítrekað, sem enn eina ferðina, enn einu sinni er engu skilað um, engum dagsetningum, engum yfirlýsingum um hvenær hún eigi að koma en sífelldur undansláttur af hálfu stjórnarliðsins um að þessi framkvæmd sé nú ekki komin úr umhverfismati og þess vegna sé ekki hægt að setja hana inn á samgönguáætlun.

En hvað heyrðum við í ræðu síðasta háttvirts ræðumanns, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins? Jú, við heyrðum að það mundi tefja eitthvað framkvæmdir við Vestfjarðaveg að það ætti eftir að ljúka umhverfismati um þá framkvæmd. Það breytir ekki því að inni eru fjárveitingar á samgönguáætlun fyrir þeirri framkvæmd, enda er það sennilega nokkuð nærri sanni sem haft hefur verið eftir formanni skipulagsnefndar Reykjavíkur, að það sé nokkuð einkennilegt að hér beri menn það fyrir sig og hafi sér til afsökunar að fjársvelta höfuðborgarsvæðið árum saman að ekki sé búið að fullhanna umferðarlausnir sem fjármagnið eigi að fara í, meðan menn hika ekki við að dæla peningum í framkvæmdir í öðrum kjördæmum vítt og breitt um landið allt sem eru ekki lengra komnar en svo að vera krot á servéttu, riss á blaði, og engin fullnaðarhönnun til um, umhverfismat eða endanlegt skipulag.

Auðvitað gengur það ekki til lengdar að með þessum hætti sé komið fram við höfuðborgarsvæðið. Ræður þingmanna Reykjavíkur úr mörgum flokkum, úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu og Frjálslynda flokknum og Vinstri grænum við fyrri umræðu um málið sýna auðvitað að hér er komið að ákveðnum kaflaskiptum, hygg ég, í samgöngumálum. Það er nú orðinn sá sögulegi viðburður, leyfi ég mér að segja, að þingmenn höfuðborgarsvæðisins eru nú loksins meiri hluti þingmanna. Sú breyting hefur orðið á kjördæmaskipan að þingmenn úr þéttbýli á Suðvesturlandi eru trúlega að verða hátt í tveir þriðju hlutar þingmanna þjóðarinnar og það endurspeglar auðvitað íbúafjöldann á þessu svæði. Hér hafa verið búnar til ákaflega einkennilegar skiptireglur sem miða við lengd vega en ekki við það hversu margir fara um vegina. Sú skiptiregla gengur einfaldlega ekki. Um þá skiptireglu að veita fjármuni til samgöngumannvirkja eftir því hversu vegirnir mælast langir á hverjum stað gengur einfaldlega ekki. Um hana verður engin sátt. Við þurfum í vaxandi mæli að spyrja eftir árangri og ávöxtun af framkvæmdum í samgöngumálum og við þurfum í æ ríkari mæli að leggja þær á mælikvarða arðseminnar, hvað við vinnum með fjárfestingu í tilteknum vegaframkvæmdum, í lækkun á slysatíðni, í fækkun dauðaslysa, í greiðari umferð, í minni eldsneytiskostnaði og þar fram eftir götunum.

Á höfuðborgarsvæðinu er einfaldlega ekki hægt að bíða í önnur tíu ár eftir nauðsynlegum framkvæmdum eins og til að mynda Sundabrautinni. Raunar er óskiljanlegt það langlundargeð sem til að mynda Vestlendingar hafa sýnt gagnvart þeirri framkvæmd og þeirri stöðu sem þeir eru í í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað þannig að fjárfestar, fyrirtæki og byggingariðnaðurinn og allir þeir sem fara nú mikinn í fjárfestingum í landinu eru að skoða svæðin á höfuðborgarsvæðinu til fjárfestinga á næstu árum. En hvaða stöðu erum við að búa til í því efni? Á það hefur formaður skipulagsnefndar Reykjavíkur bent ágætlega.

Við erum að tvöfalda gjaldfrjálsan veg til Keflavíkur. Við erum að bæta hér verulega úr gjaldfrjálsum vegi sömuleiðis yfir Hellisheiðina yfir á Árborgarsvæðið. En við erum með á leiðinni upp á Akranes veggjöld og hér tefst ár frá ári sú sjálfsagða ákvörðun að fara í Sundabraut og samhliða lyktum hennar trúlega tvöföldun Hvalfjarðarganga og enn er því haldið á lofti að til greina komi að skattleggja sérstaklega umferð á þessari leið. Við erum sem sagt að segja það að um þetta svæði, Akranes og Borgarnes, eigi að gilda einhver allt önnur lögmál en um önnur nágrannasvæði Reykjavíkur eins og Keflavík og Árnessýsluna og að ef fólk eigi leið þangað þá komi alveg sérstaklega til greina að skattleggja það og það þurfi ekki að tvöfalda þangað fyrr en umferð er orðin miklum mun meiri en á öðrum leiðum. Ég fæ ekki betur séð en við séum með þessum hætti að setja þessi byggðarlög, Akranes og Borgarnes, skör lægra en önnur svæði í kringum höfuðborgarsvæðið og draga úr líkum á því að þar sé ráðist í fjárfestingar í atvinnulífi og fjárfestingar í fasteignum, þó að svæðið njóti að vísu sem betur fer mikillar uppbyggingar á iðnaðarstarfsemi við Grundartanga og er það út af fyrir sig vel. (Samgrh.: Orkuveitan fjárfesti nú samt á svæðinu.) Jú, Orkuveitan fjárfestir þar á svæðinu og Faxaflóahafnir. Það ágæta sameignarfélag höfum við Reykvíkingar búið til með félögum okkar norðan við Faxaflóann. Svo er nú líka ákveðinn flöskuháls sem þessar eilífu tafir og undansláttur hæstv. samgönguráðherra varðandi Sundabrautina er að skapa. Við höfum á því verulegan áhuga í Reykjavík að flytja talsvert mikla starfsemi norður fyrir Faxaflóann upp á Grundartanga og efla þar mjög hafnarstarfsemina og hugsanlega endurskoða ýmsa starfsemi sem er á hafnarsvæðunum í Reykjavík. En það getum við ekki gert í þeim mæli sem við vildum fyrr en samgöngur við þetta svæði eru þannig að boðlegar séu. Til þess þarf einfaldlega tvöfalda leið og greiða umferð fyrir vöruflutninga frá Reykjavík og upp á Grundartanga. Það verður ekki fyrr en menn taka ákvörðun um að fara í þessa framkvæmd og fara hana alla leið, vegna þess að ég vil, virðulegur forseti, lýsa þeirri skoðun minni að það sé óráð að staðnæmast með Sundabrautina í Geldinganesi.

Ég tel ekki að menn eigi að tefja þessa framkvæmd fram á þriðja áratug þessarar aldar með því að skipta henni í marga áfanga. Það hefur tekið núna tíu ár að koma fyrsta áfanganum hugsanlega, mögulega á kortið einhvern tíma í náinni framtíð og mun síðan taka enn fleiri ár að berjast fyrir næstu áföngum. Ég tel að það sé hagkvæmast og arðsamast að fara alla leið í þessu efni og leggja Sundabrautina á fjórum árum alla leiðina upp á Kjalarnesið og yfir Kollafjörðinn og ná þeirri styttingu sem við þurfum á þessa leið. Það lætur þá nærri að þegar þetta hefur verið tvö ár í hönnun og í fjögur ár í framkvæmd að það er einmitt sami tímapunktur og menn telja að þörf sé á því að tvöfalda Hvalfjarðargöngin. Þá eru menn komnir með öflugar samgöngur hér norður fyrir Faxaflóann að sex árum liðnum. En ég held að það sé óráð að láta framkvæmdina stranda uppi í Geldinganesi eftir fyrsta áfanga og lýsi þeirri skoðun minni um leið og ég segi að mér finnst auðvitað fráleitt að það eigi að skattleggja sérstaklega Vestlendinga fyrir að aka um þennan veg þegar við skattleggjum ekki aðra nágranna Reykjavíkur fyrir að aka um þá þjóðvegi sem lagðir eru út frá höfuðborginni. Ég held að ekki sé hægt að bjóða þeim byggðarlögum upp á þá mismunun í framkvæmd.

Hitt getur svo komið til greina að menn endurskoði almennt gjaldtökukerfið í vegamálum líkt og menn hafa í hyggju hjá Evrópusambandinu og það komi einhvers konar almenn vegagjöld í staðinn fyrir bensíngjöldin þannig að menn borgi fyrir notkun á vegakerfinu almennt og þá ætti það við um þessa vegi eins og aðra. En að leggja sérstaklega skatta á þá sem eiga leið norður úr Reykjavík en ekki þá sem eiga leið austur úr henni eða vestur úr henni er einfaldlega ákaflega einkennilegt og getur ekki verið nokkur friður um það til lengri tíma.

Það er einfaldlega svo, virðulegur forseti, vegna þess að ræðumaðurinn hér á undan mér gerði skiptingu tekna nokkuð að umtalsefni, að 70% af þeim fjármunum sem við erum hér að ræða um eru skattpeningar sem fólk hér á þessu svæði, í Reykjavík og nágrenni, greiðir í ríkissjóð. Það er alveg ljóst að hvorki fólkið hér á svæðinu né margir þingmenn þess á þinginu úr öllum flokkum una því lengur að skiptingin á vegafénu sé síðan þveröfug. Það er ekki af neinni andúð á landsbyggðinni eða andstöðu við landsbyggðina. Þetta er einfaldlega óréttlát og óréttmæt skipting. Hér er einfaldlega fjöldinn allur af brýnum framkvæmdum í umferðarmálum sem þarf að vinda bráðan bug að.

Ég held líka að það hljóti að vera okkur almennt nokkurt umhugsunarefni hvaða aðferðafræði þetta er eiginlega sem menn hafa verið að nota í þessum vegamálum við að skipta fé sem einhvern veginn virðist hafa gengið út á að dreifa því einhvern veginn jafnt á einhverja kílómetra. Ræðumaðurinn á undan mér, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, gerði þannig t.d. að umtalsefni vegasambandið við Ísafjörð sem ég gerði að umtalsefni við fyrri umræðuna. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er í raun alveg fráleitt miðað við þjónustustigið sem við þekkjum í vegakerfinu í landinu í dag að það skuli ekki vera samgöngur á bundnu slitlagi við einn af helstu byggðakjörnum landsins, Ísafjörð, frá Reykjavík. Það er í raun fyrir neðan allar hellur að svo sé ekki.

En maður heyrir hv. þingmann fara yfir hina og þessa vegarspottana sem verið er að leggja hér og þar. Útnesveginn nefndi hann til að mynda sem er ferðamannavegur. Eitthvað var það annað í Skagafirði sem ekki var hluti af meginvegakerfinu. Við hljótum þá að spyrja okkur að því hvort það sé vænlegt að vera að útdeila einhverjum spottum með þessum hætti hingað og þangað í stað þess að taka ákvarðanir um að meginsamgönguleiðir, eins og milli höfuðborgarinnar og helstu byggðakjarna eins og Ísafjarðar, eigi að njóta forgangs þangað til því er lokið. Ég held að sú mikla umræða og þær miklu deilur sem hér hafa verið á milli flokka og innan flokka um þessa samgönguáætlun gefi mönnum fullt tilefni til þess að endurskoða almennt alla aðferðafræðina við val á verkefnum og við útdeilingu fjármagns til samgöngumálanna. Sú krafa sem hv. þm. Gunnar Birgisson hefur sett fram fyrir hönd höfuðborgarsvæðisins í því efni á sér mikinn hljómgrunn og ég trúi því að hún muni hljóta allnokkurn stuðning í afgreiðslu þingsins á miðvikudag.