131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:20]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Frú forseti. Umræðan sem hér á sér stað um vegáætlun ætti ekki að koma mönnum á óvart og það er skiljanlegt að hver líti á sitt svæði sínum augum en deilur eru uppi og því miður kannski meiri en oft áður. Ég þekki það sem þingmaður Norðvesturkjördæmis að um landsbyggðarþingmenn, sérstaklega stjórnarþingmenn, er yfirleitt rætt þannig, a.m.k. af þeim sem tala af mestum glannaskap, að þeir séu hreinir aumingjar upp til hópa og haft er til marks að þeir nái ekki nógu miklum árangri í vegamálum, séu hreinir aumingjar. Þetta fáum við oft að heyra. Þess vegna vil ég þakka sumum þeirra sem hér hafa talað af mikilli hreinskilni um sjónarmið sín og þarfir sínar í vegamálum að þeir hafa til allrar hamingju leitt í ljós að kannski sé það ekki eingöngu aumingjaskapur stjórnarþingmanna af landsbyggðinni að ekki gangi meira í vegagerð en raun ber vitni. Það er ástæða til að þakka það.

Ísland er mjög stórt land og hér búa fáir og sú var tíðin að við trúðum því að hér yrði aldrei hægt að byggja vegi á við það sem væri hjá öðrum þjóðum. Þetta hefur breyst á síðustu tveimur áratugum og við sjáum nú fram á að þetta er möguleiki, enda stendur Ísland og kjör Íslendinga jafnfætis öllu því besta í heiminum nema gagnvart samgöngum á landi. Það er þar sem skórinn kreppir. Því er mjög eðlilegt að fólk sem býr við moldartroðninga, vegi sem varla er hægt að kalla heilsársvegi, vegi sem ekki er hægt að moka á veturna, sé sárt yfir því hversu seint vegabætur koma til þess.

Ég ætla samt ekki að taka þátt í þessum deilum, virðulegi forseti, vegna þess að ég met það svo að þær skili í sjálfu sér engu. Umræðan sem skiptir máli er umræðan um að skipta því fé sem ríkið hefur til ráðstöfunar á hverju ári á fjárlögum. Það er þar sem menn taka hinar örlagaríku ákvarðanir um hve mikið fé fer til vegamála. Við erum bundin af fjárlögum hvort sem er og það verður ekki aukið nema að meira fé komi á fjárlögum. Þá skulu menn minnast þess líka, virðulegi forseti, að þeir sem vilja eyða í alla skapaða hluti, hækka, stækka, breikka og betrumbæta hvað sem er og hvar sem það finnst, að ekki er víst að hægt sé að nota alla peningana tvisvar og varla til vegamála þegar búið er að spreða þeim út og suður, eins og tillögurnar eru hér oft í þinginu þegar við ræðum fjárlögin. Við erum bundin af eigin tillögum og eigin samþykktum, við erum bundin af fjárlögum. Það er málið.

Ég vil líka segja það, þó að ég ætli ekki að blanda mér efnislega í umræðuna, virðulegi forseti, að þessi umræða um skiptingu fjár milli dreifbýlis og þéttbýlis er ákaflega óheppileg á þessari stundu þegar munurinn er hvað mestur á uppgangi þéttbýlisins miðað við dreifbýlið, þegar dreifbýlið á við hvað hörðust kjör að búa, þegar þrengt er að framleiðslunni eins og gert hefur verið á undanförnum mánuðum með hrossalækningum Seðlabankans í efnahagsmálum. Það eru fimm mánuðir síðan þau ósköp riðu yfir okkur, mig minnir að það hafi verið á Bónaparte-daginn 2. desember á síðasta ári sem fyrsta vitleysisgusan kom þaðan með stuðningi og styrk ríkisstjórnarinnar, því miður.

Þetta veldur landsbyggðinni miklum hörmungum og ef svo heldur fram sem horfir, sem ég held að verði ekki því að þetta fær ekki staðist, þarf ekki um að spyrja í þeim málum. Því er það mjög sárt fyrir landsbyggðarfólkið að heyra svo óvarlega talað um misskiptingu fjár vegna þess að allir vita að vegakerfi Íslands er fyrir Íslendinga og allir Íslendingar keyra á því. Þeir sem hafa mesta atvinnu af samgöngum eru Reykvíkingar. Þaðan eru útgerðarfyrirtækin, þaðan eru bílaútgerðirnar, þaðan eru þeir sem lifa á samgöngum, það eru fyrirtæki þeirra sem nota vegina, við eigum þá saman og höfum sameiginlega hagsmuni af að nota þá. Þess vegna er umræðan sár, virðulegi forseti, og óheppileg og væri betur komin annars staðar, þó að ég að sjálfsögðu skilji það að þingmenn allir, hvaðan sem þeir koma, hljóti að halda uppi merkjum síns fólks og sinna kjördæma og sinna svæða. Það er ekkert óeðlilegt við það. En sú nöturlega umræða eins og mér sýnist sumir fréttamenn taka hana, skilar okkur ekki neitt áleiðis. Það sem skilar okkur áleiðis, virðulegur forseti, er að geta hamið útgjöld ríkisins á öðrum sviðum þannig að meira sé til vegagerðar, við þurfum það umfram allt. Þetta var það sem ég vildi sagt hafa, virðulegur forseti.

Hins vegar vil ég, úr því að við erum að ræða vegamálin, koma aðeins inn á annað mál. Ef við lítum á kostnaðinn við vegagerðina og þá fjármuni sem við ætlum til þeirra á komandi árum þá fer ákveðið hlutfall til nýbygginga en það eru líka gríðarlega miklir fjármunir sem fara til viðhalds. Það er á vitorði allra að viðhaldið verður alltaf þyngra og erfiðara, sérstaklega hefur þetta verið áberandi og er í auknum mæli að valda okkur vandræðum eftir að svo ógæfulega vildi til að allir stórflutningar og þungaflutningar á Íslandi lögðust á vegina og sjóflutningar lögðust af. Við höfum séð skýrslu eftir skýrslu eftir eflaust vandaða embættismenn sem komast að þeirri neikvæðu niðurstöðu að ekkert þýði að tala um sjóflutninga á Íslandi, ekki verði aftur snúið, allir þungaflutningar á Íslandi skuli vera á landi.

Ég fullyrði, virðulegi forseti, að þeir fjármunir sem fara í viðhald veganna, sérstaklega vegna þungaflutninganna, eru miklu stærri tölur og miklu meiri hagsmunir en t.d. öll vegáætlunin sem við erum að fara yfir núna. Við hljótum, og það á að vera þannig, að þurfa að hugsa þetta frá víðara sjónarhorni en þeir embættismenn hafa gert sem fjallað hafa um málið til þessa. Við höfum ákveðið svigrúm, við höfum okkar eigin löggjöf, við þurfum að fara eftir því sem ESA samþykkir. Það er ekki einfalt mál, það er mjög flókið, en það er eitthvert mesta peningalega hagsmunamál Íslendinga og íslenska þjóðarbúsins að ég tali ekki um ríkissjóðs og vegasjóðs að reyna að leita leiða til að ná þverpólitískri samstöðu um hvernig og með hvaða hætti við gætum reynt að koma þungaflutningunum af vegunum og yfir á sjóinn. Það er hægt, ég viðurkenni að það er erfitt en við eigum að horfa til þess. Fjármunirnir sem í húfi eru á næstu árum og áratugum eru gríðarlegir og við þurfum á þeim að halda vegna þess að þetta stóra land þarf á vegum að halda og við verðum að fara vel með þá peninga. Þó að við eigum mikið af peningum núna og munum kannski eiga í framtíðinni verðum við að fara vel með þá, gæta þess hvað við erum að gera. Ég er sannfærður um það, virðulegur forseti, að fátt væri þjóðhagslega nauðsynlegra en að finna leiðir til að losna við mest af þungaflutningunum yfir á sjóinn. Þetta held ég að sé stóra málið.

Við getum svo deilt áfram um það hvernig við verjum peningunum. Það eru miklir peningar sem við erum að verja núna á síðustu árum enda hefur líka orðið mikil framleiðniaukning í vegagerð. Þess vegna erum við að sjá að draumar okkar geta ræst sem menn höfðu enga trú á fyrir 10–15 árum. Það er glæsilegt, það er von í því. Við skulum samt halda jafnvæginu og halda nokkurn veginn sönsum yfir því, þetta gengur yfir. Við höfum gert vel og ég er alveg sannfærður um að við getum gert betur. Það er eðlilegt á hverjum tíma að menn deili vegna þess að margt getur orkað tvímælis en við höldum þó áfram á réttri braut. Það verður að fara vel með þá peninga sem við þurfum því að þeir eru ekki ótakmarkaðir, þeir verða aldrei ótakmarkaðir frekar en annað sem hið opinbera fjallar um.