131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[01:57]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hafa að mörgu leyti farið fram prýðilegar og þarfar umræður um samgönguáætlun í dag. Auðvitað þurfa þingmenn á slíkum umræðum að halda til að átta sig á því á hvaða leið þeir eru. Eins og hv. þingmaður sagði hér á undan, Jón Bjarnason, er það á ábyrgð meiri hlutans sem hér er gert. Þó hafa ýmsir stjórnarandstæðingar samþykkt þær áætlanir sem hér eru til umræðu, bæði fjögurra ára áætlun og tólf ára áætlunin, ásamt jarðgangaáætlun sem var samþykkt árið 2000, sem er nú komin inn í langtímaáætlunina.

Ég tel út af fyrir sig gott að menn reyni að ná saman um þessa hluti. Þannig hefur það verið í kjördæmunum og ég þekki það úr gamla Vesturlandskjördæminu og síðan aftur úr Norðvesturkjördæmi, að þar er nokkuð gott samkomulag milli þingmanna um framkvæmdaröð. Það er hins vegar ekki þannig að menn séu sáttir við hve mikið er til skiptanna og allir vildu gera meira heldur en fjármunirnir hrökkva til.

Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að gera miklu meira í samgöngumálum en gert hefur verið. Mér finnst menn vera heldur lítilþægir í þeirri umræðu. Hæstv. samgönguráðherra hefur t.d. með jöfnu millibili haldið miklar ræður um að við vinnum einhver gífurleg afrek í samgöngumálum. Ég er bara ekki sammála því. Við höfum notað tiltölulega lítinn hluta af þeim fjármunum sem fást í ríkissjóð af umferðinni, bílainnflutningi, umferð og eldsneytissölu í landinu. Á undanförnum árum hefur gríðarlega stór hluti af þessum fjármunum farið í ríkissjóð, í annað en vegina. Ég held að það sé full ástæða til þess að minna á þetta. Samgönguráðherra kemur hér hvað eftir annað, eins og ég sagði áðan, bókstaflega í keng eftir moksturinn og finnst hann hafa unnið hvert afrekið eftir öðru og ríkisstjórnin og þeir sem stjórna landinu hafi unnið gríðarleg afrek.

Mér finnst kominn tími til að menn hækki svolítið kröfurnar hvað þetta varðar. Ég held að það sé a.m.k. full ástæða til að gera það í átakinu sem er í raun og veru fram undan, sem er gríðarlega mikið, og er fólgið í því í fyrsta lagi að koma á nothæfum vegum heim til fólks í landinu, úti á landsbyggðinni, í öðru lagi að bæta úr brýnustu samgönguvandamálunum á höfuðborgarsvæðinu og í þriðja lagi að endurgera þarf stóran hluta af þjóðvegum landsins sem þó er búið að setja á bundið slitlag núna, vegna þess að þeir eru engan veginn nothæfir fyrir þá umferð sem nú þegar er komin á þá, þungaflutningaumferð. Það er vandamál sem hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár. Það kann að vera að það séu einhverjir möguleikar til að draga úr þessu vandamáli en þó að eitthvað af þeim ráðum virkuðu kemur það aldrei í veg fyrir þá þörf sem ég var að tala um áðan, þ.e. þörf fyrir endurbyggingu veganna og endurskoðun á þeim. Þeir hafa verið ákvarðaðir of mjóir fyrir þá umferð sem er og þeir bera ekki þá þyngd sem fer um vegina, því miður, margir þeirra vega sem við höfum meira að segja verið að byggja fyrir tiltölulega fáum árum.

Mér finnst full ástæða til í sambandi við þá umræðu sem farið hefur fram hér í dag að segja að auðvitað þurfum við að komast upp úr hjólfarinu sem við höfum verið í og erum í, að horfa sífellt á þessi mál út frá því kjördæmi sem við erum úr, því að landið á auðvitað að vera eitt kjördæmi hvað samgöngumálin varðar. Menn ættu ekki að þurfa að takast á um þessi mál út frá kjördæmasjónarmiðum vegna þess að vegirnir eru auðvitað sameiginlegt verkefni okkar allra. Við notum þá meira og minna sameiginlega öll. Það eru æðimargir á höfuðborgarsvæðinu sem nota vegina úti á landi ekki minna en fólkið sem þar býr. Þetta er ekki þannig að menn þurfi að ræða um þessa hluti á þeim nótum að skipta eigi fjármunum eftir því hve margir búa á svæðinu, skárra væri það nú. Það er ekki möguleiki að gera það og engin glóra í þeirri hugsun heldur, en það er ekki þar með sagt að ekki séu full rök fyrir því að fara í mikilvægar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég sé ástæðu til þess að gera athugasemdir við framgöngu hæstv. samgönguráðherra vegna þess að mér finnst hann eiga dálitla sök á þeirri togstreitu sem er meiri núna milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins en verið hefur. Það er að mínu viti vegna þess að hæstv. samgönguráðherra grípur nánast hvert einasta tækifæri þar sem hann kemst í tæri við hljóðnema eða í sjónvarp til að vera með einhvers konar athugasemdir við framgöngu stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega Reykjavíkurlistans. Það hefur valdið töluverðri spennu og pirringi. Þetta hefur verið út af vegamálunum og út af flugvallarmálunum og það er full ástæða til að nefna þetta hér af því þetta er óheppilegt. Þetta er vont fyrir okkur öll og vont fyrir landsbyggðarþingmenn að þurfa að lenda í því að fá upp þessa umræðu með þeim hætti sem við höfum fylgst með hér í dag. Mér finnst að hæstv. samgönguráðherra eigi að slíðra sverðin og reyna að vinna að því að það verði betri sátt og sitja svolítið á sér þegar hann kemst í námunda við hljóðnemana eða í sjónvarpið út af þessum samgöngumálum.

Ef við veltum fyrir okkur hvar þurfi mest á átaki í vegamálum að halda þá held ég að aldrei geti orðið mikil deila um það. Það á eftir að tengja landshluta. Menn keyra marga tugi kílómetra, hundruð kílómetra á malarvegum til Vestfjarða og eftir eru langar vegalengdir af malarvegum á Austfjörðum. Þarna erum við að tala um þjóðvegina sjálfa, aðalvegi landsins. Þarna er þörfin auðvitað mest, hana þurfum við að uppfylla.

Það er skoðun mín að bæta þurfi verulega í samgöngumálin, það eru nógir peningar til þess. Úr uppsprettu fjármuna til vegamála rennur gríðarlega mikið fjármagn í ríkissjóð og það er greinilega meiningin að það gerist áfram í bili. Ég vona að það breytist á næstunni, að þó að sú áætlun sem við sjáum fram á núna sé með þeim hætti sem raun ber vitni, verði blaðinu snúið við sem allra fyrst þannig að breyting verði á strax að tveim árum liðnum. Ég vona að þau verði ekki fleiri en það hörmungarárin sem við sjáum núna fram undan. Þá tel ég að endurskoða eigi þessa vegáætlun með meiri reisn en gert er ráð fyrir núna, þó að gert sé ráð fyrir meiri fjármunum eftir að þessi tvö ár eru liðin, 2005 og 2006, þá tel ég að þar sé engan veginn nægilega mikið fjármagn á ferðinni, við verðum að gá að því að stór hluti af þeim fjármunum sem þá verða til skiptanna fara líka í stórframkvæmdir. Það fer mikið í þetta umdeilda verkefni Héðinsfjarðargöngin sem verða auðvitað gerð og búið er að taka ákvörðun um. Ég samþykkti ekki þau göng, ég samþykkti jarðgangaáætlun á árinu 2000 en að öðru leyti ber ég ekki neina ábyrgð á þeirri ákvörðun. Ég tel hins vegar að hún sé staðreynd og mér finnst miður að ekki skuli staðið með faglegri hætti að ákvörðun af þessu tagi, vegna þess að ég tel að það hafi ekki verið gert sem þurfti að gera, að horfa á þetta svæði allt, Skagafjörð og Eyjafjörð, skoða hvaða framtíð menn sjá þar fyrir sér. Ég hef enga trú á að niðurstaðan hefði orðið önnur en sú að innan fárra áratuga, tveggja, þriggja áratuga, væru komin göng í gegnum Tröllaskaga til að tengja saman byggðirnar þarna, Eyjafjörð og Skagafjörð. Ef maður gefur sér þá niðurstöðu tel ég að sú niðurstaða að tengja Siglufjörð gegnum Héðinsfjörð inn í Eyjafjörð, hefði ekki komið. Þá hefðu menn skoðað aðrar leiðir en hana en hún er sem sagt sú sem farin verður og ég ætla ekki að eyða tíma mínum eða kröftum í að hnotabítast út af því hér. Mér finnst samt að þetta þurfi að vera víti til varnaðar þannig að menn muni eftir því þegar þeim dettur einhver stórframkvæmd í hug í framtíðinni, að hún verði þá a.m.k. látin sæta því að horft sé á hana með tveggja, þriggja áratuga gleraugum, en það var ekki gert í þessu tilfelli.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara yfir einstakar framkvæmdir í vegamálum. Við fórum yfir þau mál með þingmönnum Norðvesturkjördæmis. Það er ágæt sátt um áherslurnar í þingmannahópnum. Það er okkar hlutverk, þó að ég hafi sagt hér í upphafi að landið þurfi að vera eitt kjördæmi hvað þessa hluti varðar þá verðum við auðvitað að sinna því hlutverki sem við höfum, sem er að reyna að ná saman og hafa sátt um áherslurnar og þá röð sem menn vinna að framkvæmdum í kjördæmum okkar. Það hefur verið gert og prýðilega að því staðið. Miðað við fjármuni sem eru til staðar þá tel ég að ekki sé uppi nein sérstök deila um hvernig raða eigi þeim fjármunum. Það liggur alveg ljóst fyrir að þetta eru mögur ár, 2005 og 2006 sérstaklega, og allt tímabilið að mínu viti heldur dapurt og allt of dapurt.

Það eru auðvitað ástæður til þess að hafa samt einhverjar vonir í brjósti um breytingar. Ég ætla að hafa það lokaorð mín hér að ég trúi ekki öðru en við sölu Símans, eftir að hafa hlustað á yfirlýsingar framkallaðar af samflokksmanni forsætisráðherra um að nota eigi hluta af fjármunum af sölu Símans til að koma af stað stærstu framkvæmd sem er fram undan í samgöngumálum, þ.e. Sundabraut, haldi menn því til haga að einhverjir fjármunir sem þarna koma til verði notaðir til að standa líka við þau loforð að nú sé komið að því að koma til móts við Norðvesturkjördæmi hvað varðar byggðaátak. Ég held því fram að byggðaátak í Norðvesturkjördæmi, eitt af því sem ætti auðvitað að vera þar fremst á blaði, væri sú tenging byggðarlaganna á Vestfjörðum sem menn vilja fá og þar með stytting um leið á veginum frá Ísafirði til Reykjavíkur, þ.e. um Arnkötludal. Ég held að það gæti orðið ágæt sátt um að þetta væri hluti af byggðaátaki fyrir Vestfirði og fjármunir ættu þá að geta komið úr sölu Símans í það ekki síður en í Sundabrautina.

Þó að það sé margt sem ég hefði áhuga á að tala um er það nú þannig að flestir þingmenn eru gengnir til náða og þessi umræða er búin að standa nokkuð lengi. Ég geri ekki ráð fyrir að hún fjörgist mikið upp úr þessu á þessari nóttu, en hún hefur eins og ég sagði verið gagnleg. Ég held að það sé gott að menn fari yfir þessa hluti og þó að ég sé ósammála ýmsu af því sem komið hefur fram í tillögum Gunnars Birgissonar, sem voru meira til umræðu hér fyrr í dag, þá hefur sú tillaga þó komið af stað ágætisumræðu og ég held að þingmenn hafi haft gott af því að hugsa málin frá þeim sjónarmiðum og sjónarhornum sem hér hafa verið sett fram. Það þarf auðvitað að fara yfir málin öðru hvoru og þó að það fari kannski í taugarnar á sumum þegar einhverjir vilja fara aðrar leiðir er það hluti af því að vera í starfi á Alþingi að takast á um sjónarmiðin. Síðan verða menn auðvitað að sæta því að ná ekki fram því sem þeir vilja. Ég sé ekki fyrir mér eftir þá umræðu sem farið hefur fram í dag að Gunnar Birgisson nái fram sinni tillögu, a.m.k. hafa ekki verið raðir af þingmönnum í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við hana. En ýmislegt er þó í henni sem mætti velta fyrir sér.

Að lokum vil ég svo segja að mér finnst að þingmenn á höfuðborgarsvæðinu eigi ekki að taka þessa umræðu mjög alvarlega, að það séu bara 20% undanfarin ár til þeirra, það er ekkert slæmt. Ef menn fara að horfa á verkefnin og horfa á landið sem eitt kjördæmi í samgöngumálum, eins og þeir eiga að gera, ætti alveg eins að vera hægt að ná samkomulagi milli allra þingmanna í landinu um að raða í framkvæmdaröð og að menn í einstökum kjördæmum ná saman um að raða í framkvæmdaröð í sínum kjördæmum. Ég held að það hafi bara tekist þokkalega vel í gegnum tíðina að gera það í kjördæmunum. Ég hvet til þess að menn hugsi málin út frá því miklu frekar en að rífast um einhverjar prósentur út frá því hve margir búa á einstökum stöðum, vegna þess að það skilar okkur ekki einu eða neinu, enda eru það viðmiðanir sem ganga ekki upp. Það er ekki neitt samhengi milli fjöldans og kostnaðarins við að leggja vegi og halda þeim við.