131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[02:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum komin að lokum umræðu um samgönguáætlunina. Ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að hún hefur að mörgu leyti verið málefnaleg. Það hefur verið tekist á um ákveðna þætti þessarar áætlunar eftir að samgöngunefnd Alþingis hefur farið yfir hana.

Ég kem hins vegar í ræðustól með svipaða ræðu og ég flutti við fyrri umræðu, sem er aftur svipuð ræða og ég flutti um þetta efni á síðasta þingi, þinginu þar áður og sennilega þar áður líka. Mínar ræður lúta einatt að jaðaratriðum samgönguáætlunarinnar, þ.e. þeim atriðum sem lúta að umferðaröryggismálunum. Ég tek það fram að ég er í grunninn sammála hæstv. samgönguráðherra um að allar vegabætur séu þegar grannt er skoðað gerðar með tilliti til umferðaröryggis en það breytir því ekki að þessari áætlun fylgir umferðaröryggisáætlun. Ég spurði spurninga við fyrri umræðu varðandi fjármuni sem fara í þessa áætlun, varðandi kostnaðarmat, markmiðssetningu og aðra hluti. Ég sakna þess að nefndarmenn í samgöngunefnd hafi ekki komið inn á þessi mál í ræðum sínum í dag. Ég trúi auðvitað ekki öðru en að umferðaröryggisáætlunin, að sá þáttur hafi verið tekinn til umfjöllunar í nefndinni.

Staðreyndin er sú að ég tel, virðulegi forseti, að við náum ekki árangri í umferðaröryggismálum fyrr en við gefum þeim þann sess sem þeim ber og hættum að gleyma að tala um umferðaröryggismál sem umferðaröryggismál í samgönguáætluninni. Það er ekki að tilefnislausu að hæstv. samgönguráðherra hefur sett umferðaröryggismál á oddinn í sinni tíð, eftir að hann tók við umferðaröryggismálunum á sitt borð. Ætlunin hefur verið, eftir því sem hæstv. ráðherra hefur sagt í ræðum sínum, að lyfta grettistaki. Ég styð hann sannarlega í því en hins vegar gagnrýni ég jafnframt að þess skuli ekki sjást skýrari merki í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir. Eftir henni verður jú unnið. Þessi áætlun kemur til með að skammta fjármunina í þau verkefni sem fyrir liggja. Ég hef grun um það að þeir peningar sem hér er talað um að fari í umferðaröryggisáætlun á næstu fjórum árum séu ekki mikið meiri heldur en farið hafa til umferðaröryggismála hingað til. Ég sætti mig ekki alveg við að verkefnin skuli ekki vera skilgreind betur en raun ber vitni. Þetta er það sem mig langaði að ítreka úr fyrri ræðu minni.

Annað atriði sem mig langar til að koma inn á varðar sömuleiðis jaðarþætti samgönguáætlunar, þ.e. samgöngur sem eru ekki lúta lögmálum einkabílismans heldur samgöngur sem kenna má við sjálfbærni og sjálfbærar samgöngur, þ.e. samgöngubætur fyrir hjólandi vegfarendur.

Í allan vetur hefur legið inni í samgöngunefnd tillaga til þingsályktunar um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar. Ég sakna þess auðvitað mjög að sjá ekki þá tillögu afgreidda frá nefndinni. Ég hefði talið verulegan feng í að fá umræðu um þær hugmyndir sem í þeirri tillögu eru í umræðum um samgönguáætlun. Ég held að tímabært sé að við tökum á honum stóra okkar hvað þetta varðar, að tryggja hjólandi vegfarendum þau skilyrði sem eðlileg geta talist til að hjólið geti orðið samgöngutæki. Hingað til höfum við staðið okkur afar slælega í þessum efnum. Sveitarfélögin hafa auðvitað staðið sig misjafnlega en Reykjavík sennilega einna best, og þótt nágrannasveitarfélög borgarinnar hafi tekið sig á á síðustu árum þá vantar stóran þátt í hjólreiðabrautakerfið sem hér hefur verið byggt upp. Það er þáttur sem ætti að vera á framfæri og ábyrgð ríkisins, þ.e. tengingin milli þéttbýlisstaða og það að meðfram stofnbrautum í þéttbýli, sem eru á ábyrgð ríkisins, séu jafnframt lagðar hjólabrautir.

Það dugir ekki til lengdar að bjóða hjólreiðafólki upp á að hjóla eingöngu á útivistarstígum. Ef við ætlum að nota hjólin sem samgöngutæki þá verðum við að heimila hjólreiðamönnum að fara stystu leið á milli A og B, á nákvæmlega sama hátt og við heimilum bíleigendum að gera það. Það er eðlilegt að hér sé talað um stefnumótun varðandi hjólreiðar í tengslum við samgönguáætlun. Ég vona að ég sé ekki eilíflega að berja höfðinu við steininn í þessum efnum. Ég vona að það komi að því að menn átti sig á því að hjólreiðar, sjálfbærar samgöngur, eiga heima í umræðunni um samgönguáætlun. Ég vona sannarlega að það gerist áður en ég hverf af þingi.

Ég brýni hv. þingmann, formann samgöngunefndar, Guðmund Hallvarðsson, til dáða í þessum efnum, að taka hjólreiðarnar upp á sína arma, og koma með merki um það í þingsal að tekið verði til hendinni í þessum málum og að hjólreiðafólki verði tryggðar mannsæmandi aðstæður til að nota hjól sem samgöngutæki.

Þingmönnum hefur í dag orðið tíðrætt um ákveðna þætti í samgönguáætlun. Þar hefur borið nokkuð hátt umræður um Héðinsfjarðargöng. Ég get ekki látið hjá líða, eftir að hafa hlustað á umræðurnar meiri part dagsins, að taka fram að ansi margt í röksemdafærslu þeirra sem vilja að það mál verði tekið upp aftur höfðar til mín. Ég verð að segja að mér finnst það nokkuð alvarlegt, þegar við stöndum frammi fyrir því að hafa í höndunum ákvörðun um svo dýra framkvæmd sem Héðinsfjarðargöngin eru, er upp í hendurnar á okkur koma, oftar en einu sinni í öllu þessu ferli, upplýsingar um að ekki sé búið að reikna þessa hluti eins og eðlilegt gæti talist. Mér finnst alvarlegt að umræðan geti ekki farið fram á málefnalegri grunni en raun ber vitni.

Ég held að við verðum að leyfa okkur þann munað, þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sætta sjónarmiðin. Í mínum huga hefur það ekki verið gert. Það eru ólík sjónarmið uppi og við þekkjum öll sjónarmið sem Trausti Sveinsson, bóndi í Bjarnargili í Fljótum, hefur gert grein fyrir í Morgunblaðsgreinum árum saman, varðandi aðra möguleika en fara í gegnum Héðinsfjörð.

Ég verð að segja að mér hefur alltaf fundist röksemdafærsla Trausta Sveinssonar trúverðug og málefnaleg. Ég hef ekki séð hans sjónarmiðum svarað af opinberum aðilum á síðum sama dagblaðs, Morgunblaðsins, svo að ásættanlegt sé. Þegar Trausti fer yfir þá niðurstöðu sína, sem hann gerir í grein í Morgunblaðinu í dag, að hann telji að vegna ástandsins á Almenningum, eigi skilyrðislaust að bora fyrstu göngin úr Fljótum til Siglufjarðar, vegstytting yrði þar um 13 kílómetrar eftir því sem hann segir, þá telur hann að kominn sé um helmingurinn af Fljótaleiðinni, og síðan eigi bara að bora önnur göng úr Fljótunum í Ólafsfjörð og láta Héðinsfjörðinn í friði. Hann talar á forsendum náttúruverndar, sem er auðvitað gildur þáttur í umræðum um vegamál og í umræðum um samgöngumál.

Við tökum á móti hundruðum þúsunda ferðamanna á hverju einasta ári og vitum alveg eftir hverju fólk sækist. Það hefur komið fram í ótal skoðanakönnunum meðal erlendra ferðamanna sem sækja Ísland heim. Menn sækjast í auknum mæli eftir ósnortinni náttúru. Það að eiga ósnortinn fjörð á borð við Héðinsfjörð eru ekkert lítil auðæfi. Það eru gríðarleg auðæfi. Það verður að vega þau auðæfi móti því sem fengið er með þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er. Í mínum huga höfum við ekki tekið þá umræðu. Í mínum huga er margt eftir í þessari umræðu og Trausti Sveinsson hefur bent á það í fjölmörgum greinum. Ég kann honum miklar þakkir fyrir.

Hæstv. forseti. Ég tel svo sem ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu. Ég hef komið að mínum hjartans málum í þessa umræðu þannig að þau fara a.m.k. í þingtíðindin. Það skiptir verulegu máli að við horfum víðar í þessu sambandi en við höfum gert hingað til. Gleymum því ekki að það eru fleiri samgöngutæki en einkabíllinn. Gleymum því ekki að það eru fleiri sjónarmið í samgöngumálum en þau að komast stystu leið á milli tveggja staða. Það þarf líka að horfa til verndarsjónarmiða og vega saman ólík gildi. Það er auðvitað slík útvíkkun á umræðunni sem þarf að eiga sér stað.