131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

755. mál
[10:47]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Óafgreidd mál hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála eru nú 77 talsins, sem skiptast þannig eftir árum: Frá 2002 eru 3 mál, frá 2003 eru 17 mál, frá 2004 eru 28 mál og frá 2005 eru 29 mál. Eitthvað er um að fleiri en ein kæra hafi borist vegna sömu ákvörðunar eða sama máls. Í slíkum tilvikum eru mál sameinuð ef skilyrði eru til þess. Að auki er nokkuð um að mál séu afturkölluð. Koma því jafnan færri mál til úrskurðar hjá nefndinni en ætla mætti miðað við heildarfjöldann hér að ofan.

Ég vil taka það fram að óafgreidd mál frá árinu 2002 og 2003 varða með einni undantekningu ákvarðanir hjá Reykjavíkurborg, sem ekki hefur verið unnt að afgreiða vegna þess að dregist hefur að Reykjavíkurborg láti úrskurðarnefndinni í té þau gögn er fyrir hafa legið á lægra stjórnsýslustigi og greinargerðir vegna þeirra. Hefur þessum gögnum enn ekki verið skilað í flestum þessara mála þótt ítrekað hafi verið gengið eftir þeim af hálfu úrskurðarnefndar, nú síðast með bréfi dagsettu 12. apríl síðastliðinn.

Augljóst má vera að úrskurðarnefndin getur ekki fjallað um kærumál nema fyrir liggi gögn og bókanir stjórnvalds í málinu. Er umhugsunarefni hvort skerpa þurfi á skyldum sveitarfélaganna í þessu efni en dæmi eru um að stjórnvöldum séu að lögum settir sérstakir frestir til að skila gögnum til kærustjórnvalds, samanber 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Meðalafgreiðslutími mála hjá úrskurðarnefndinni var á árinu 2003 kominn á annað ár en hefur farið lækkandi eftir að sérstakt átak var gert til að vinna á uppsöfnuðum vanda hjá nefndinni. Meðalafgreiðslutími mála á sex mánaða tímabili, frá 1. október 2004 til 31. mars 2005, var 6,3 mánuðir en á því tímabili var 39 málum lokið hjá nefndinni.

Hvað snertir 3. lið fyrirspurnarinnar, um mál tengd Kópavogsbæ, þá eru fjögur mál til meðferðar hjá nefndinni tengd Kópavogi.