131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

755. mál
[10:50]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni, dr. Gunnari Birgissyni, fyrir að velta þessu máli upp. Sömuleiðis vil ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir greinargóð svör.

Það er afskaplega hvimleitt og erfitt fyrir þá aðila sem þurfa að bíða eftir úrskurði frá þessari annars ágætu nefnd. Ég þekki það frá þeim vettvangi sem ég starfa líka á, í borgarstjórn Reykjavíkur og í skipulagsráði. En það hefur hins vegar verið að koma í ljós, þvert á það sem haldið hefur verið fram, að þetta snýr að fleiri málum en þessari ágætu nefnd. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að hennar störf séu jafnskilvirk og mögulegt er, allra hluta vegna og sérstaklega fyrir borgarana. En hér heyrir maður svipuð svör og þau sem maður hefur heyrt inni í umhverfisnefnd, frá forsvarsmönnum þessarar nefndar, að í það minnsta hjá Reykjavíkurborg hafi menn ekki verið nógu duglegir við að koma gögnum áleiðis. Ég tek undir að skoða þarf hvort skerpa eigi á skyldum sveitarfélaga hvað þetta varðar.